Karlmaður er sakaður um nauðgun í nafnlausu bréfi sem hefur undanfarið borist inn á lögmannsstofur, fjármálastofnanir og fjölmiðla. Grímur Grímsson, yfirmaður miðlægrar deildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, staðfestir í Fréttablaðinu í dag að lögreglan hafi málið til skoðunar og að maðurinn hafi kært bréfasendingarnar.
Bréfið er útprentað og efst er mynd af manninum. Þá er hann nafngreindur í fyrstu línu bréfsins og sakaður um nauðgun. Kynnum bréfritara og mannsins er lýst í bréfinu en þau eru sögð hafa farið saman heim til hans eftir skemmtun og að hann hafi brotið gegn henni þar. Í bréfinu kemur fram að fólki kunni að finnast siðlaust að senda slíkt bréf út en að það skipti bréfiritara engu, þar sem hún vilji vara við manninum.
Í Fréttablaðinu kemur fram að sending bréfsins geti verið brot á 236. grein almennra hegningarlaga þar sem segir að sé ærumeiðandi aðdróttun birt eða borin út opinberlega varði það sektum eða fangelsi allt að tveimur árum.
Þá vitnar Fréttablaðið í Jón Þór Ólason, sérfræðing í refsirétti, sem segir að nafnleysi bréfsins geri málið að opinberu refsimáli. Hann segir að hinu opinbera beri að rannsaka málið og gefa út ákæru ef það þykir líklegt til sakfellingar.