Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, segist ekki hafa fengið hótanir vegna hugsanlegrar stjórnarmyndunarviðræðna við Sjálfstæðisflokkinn og Framsókn.
Sjá einnig: Morgunblaðið segir að Katrínu hafi verið hótað, hafnaði viðræðum við Bjarna og Sigurð Inga
Morgunblaðið greindi frá því í morgun að Vinstri græn hafi hafnað því að taka upp stjórnarmyndunarviðræður við Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn.
Þar sagði einnig að ungliðar og grasrót VG muni hafa þrýst mikið á Katrínu Jakobsdóttir, formann flokksins, að taka ekki þátt í viðræðunum og að henni hafi einnig borist hótanir úr þessum áttum um afsagnir úr trúnaðarstörfum fyrir flokkinn.
Spurð út í þetta segir Katrín að það sé alveg kunnugt að fólk innan Vinstri grænna hafi ekki verið áhugasamt um samstarf, eins og áður hefur komið fram í máli Katrínar.
„Ég hef ekki fengið neinar hótanir,“ segir Katrín í samtali við Vísi. „Ég hef sagt það margoft að það er mjög langt á milli flokka og þess vegna tel ég ólíklegt að viðræður muni skila árangri. Það er staðan.“