Auglýsing

Katrín Sif kláraði öll 500 borðin í Orðasnakki fyrst allra Íslendinga: „Ég hef alltaf verið góð í íslensku“

Katrín Sif Árnadóttir er fyrsti Íslendingurinn sem vitað er um sem klárar leikinn Orðasnakk. Annar hver Íslendingur virðist vera að spila leikinn þessa dagana sem endurspeglast í óteljandi beiðnum á Facebook þar sem fólk óskar eftir hjálp frá vinum sínum.

Orðasnakk gengur út á mynda íslensk orð úr bókstöfum sem spilurum eru gefnir hverju sinni. Spilarar fá svo stig sem þeir geta notað til að „kaupa“ hjálp við að finna réttu orðin en fólk fær einnig hjálp frá vinum sínum. Það er til marks um vinsældir leiksins að rúmlega fjögur þúsund manns eru í Facebook-hópnum Orðasnakk- hjálpumst að þar sem fólk hjálpar hvert öðru í leiknum.

Katrín Sif er ein þeirra sem náði sér í leikinn um jólin en í gær gerði hún sér lítið fyrir og kláraði öll 500 borðin. Hún var afar sátt með að vera búin að klára verkefnið þegar Nútíminn náði tali af henni. „Ég er mikið að leysa krossgátur og hef alltaf verið góð í íslensku og stafsetningu,“ segir hún.

Hún var í tíu daga að klára leikinn og komst á gott skrið milli jóla og nýárs. „Þegar litli strákurinn minn fór til pabba síns á milli jóla og nýars hafði eg nægan frítíma. Ég var komin á borð númer 186 á annan í jólum og kláraði leikinn í gær.“

Þegar illa gekk leitaði Katrín fyrst til fjölskyldunar áður en hún leitaði á náðir internetsins. „Ég fékk pabba, systur mín og mágkonu til að spila leikinn yfir hátíðarnar og þegar við vorum strand þá hjálpuðumst við að.“

Ef allir voru strand þá spurði ég á Facebook.

Hún segir galdurinn við að klára öll borðin vera að hrista nógu oft upp í stöfunum. „Ef það virkar ekki að hrista upp í stöfunum mæli ég með því að spilarar leggi frá sér símann í smá stund. Þegar þú byrjar aftur að spila sérðu oft orðið strax.“

Katrín segir að þó þetta hafi verið skemmtilegt þá sé líf eftir leikinn. „Lífið heldur áfram. Ég er ein með tvo orkumikla drengi svo það er alltaf nóg að gera,“ segir Íslandsmeistarinn í Orðasnakki að lokum.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing