Katrín Tanja Davíðsdóttir tryggði sér þriðja sætið á heimsleikunum í CrossFit eftur hörku spennandi lokadag í gær. Annie Mist Þórisdóttir og Björgvin Karl Guðmundsson enduðu bæði í fimmta sæti á leikunum.
Fyrir lokagreinina var Katrín í þriðja sætinu aðeins sex stigum á undan Kara Saunders sem var í fjórða. Hún náði nægilega mörgum stigum í lokagreininni til þess að tryggja sér bronsið. Annie Mist var í fimmta sæti fyrir lokagreinina og náði að halda því.
Björgvin Karl var einnig í fimmta sæti fyrir lokagreinina og átti góða möguleika á því að tryggja sér hærra sæti með góðum árangri í lokagreininni. Hann endaði í tólfta sæti í sínum undanriðli í lokagreininni sem þýddi að hann náði fimmta sætinu en ekki ofar.
Oddrún Eik Gylfadóttir lækkaði um eitt sæti eftir lokagreinina og endaði í 26. sæti á sínum fyrstu heimsleikum. Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir neyddist til að draga sig úr keppni í gær vegna meiðsla.
Tia-Clair Toomey sigraði í kvennaflokki og Mathew Fraser sigraði í karlaflokki.