Katrín Tanja Davíðsdóttir varð heimsmeistari í CrossFit, annað árið í röð í gærkvöldi. Þau sem fylgdust með keppninni sáu að sigurinn var afar tilfinningaríkur fyrir Katrínu sem birti þessa mynd á Instagram í gær:
Á myndinni sést amma Katrínar, Hervör Jónasdóttir, hvetja hana áfram í keppni á Íslandi. Hervör lést í apríl á þessu ári og í textanum með myndinni sést að frammistaða Katrínar á heimsleikunum í Kaliforníu var ömmu hennar til heiðurs.
Þetta er fyrir þig. Saman, að eilífu og alltaf.
Katrín Tanja bjó hjá ömmu sinni og afa frá því að hún hóf nám í framhaldsskóla. Hún flutti til Boston í janúar á þessu ári til þess að geta æft með þjálfara sínum og til að geta einbeitt sér að fullu að CrossFit.
„Ég get æft vel sjálf en það er herslumunur að vera með þjálfara á svæðinu og mér finnst ég alltaf bæta mig svo ótrúlega á æfingum með honum, hver dagur er alveg 100%,“ sagði hún í samtali við mbl.is fyrr á þessu ári.
Katrín Tanja var í nærmynd í Íslandi í dag eftir sigurinn á heimsleikunum í CrossFit í fyrra og sagði þá frá sambúðinni með ömmu sinni og afa í Reykjavík. „Þau styðja mig rosalega vel í þessu,“ sagði hún en amma hennar var þekkt fyrir að láta í sér heyra þegar Katrín var að keppa.
„Amma mín er þekkt fyrir að vera háværust á pöllunum. Það heyrist hæst í henni. Þegar ég vann fyrsta Íslandsmeistaratitilinn þá var viðtal við hana í kvöldfréttunum, ekki mig.“
Hervör, amma Katrínar, sagði þau njóta þess að hafa hana hjá sér. „Hún hefur alla tíð verið þvílíkur gleðigjafi fyrir alla í fjölskyldunni,“ sagði hún í nærmyndinni. „Við erum óendanlega stolt af henni. Þetta hefur kostað blóð, svita og tár.“