Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, var spurð út í launamun kynjanna á Alþingi í dag. Hún segir að launamunur kynjanna eigi að sjálfsögðu að vera enginn og að það sé ótrúlegt að í dag séum við enn í þeirri stöðu að ekki sé búið að jafna með öllu launamun kynjanna.
Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Miðflokksins og Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar, kröfðu forsætisráðherra svara um jafnréttismál í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í morgun. Gunnar Bragi spurði sérstaklega út í ummæli Sigríðar Á. Andersen, dómsmálaráðherra, um að ályktun á vefsíðu Kvennafrídagsins um meðalatvinnutekjur kvenna og karla væri röng.
Sigríður sagði að launamunur kynjanna væri í raun um 5 prósent samkvæmt tölum Hagstofunnar ef tillit væri tekið til þátta á borð við vinnu, vinnutíma, menntun, reynslu eða mannaforráða. Hún sagði einnig að þessi kynbundni munur gæfi ekki tilefni til þess að álykta nokkuð um kynbundið misrétti.
Katrín segir að hún sé talsmaður þess að stjórnmálamenn ræði mál á Facebook eða annars staðar og að hún hafi enga þörf á því að setja lok á þann pott. Hún sagði þá að það væru til ólíkar aðferðir til að mæla launamun kynjanna.
„Munurinn á að sjálfsögðu enginn að vera. Við eigum að meta konur og karla til jafns og það getur bæði snúist um það að leiðrétta þann mun sem við köllum leiðréttan en óskýrðan launamun, sem þýðir í rauninni bara mismunandi laun fyrir sama starf,“ sagði Katrín. Hún vill ekki að umræðan um launamun kynjanna týnist í umræðum um aðferðafræði.
„Í raun er hreint ótrúlegt að eftir fyrsta kvennafríið, sem haldið var 1975, ári fyrir fæðingardag minn, séum við enn í þeirri stöðu að ekki sé búið að jafna með öllu launamun kynjanna. Það er í raun alveg ótrúlegt að það hafi tekið 43 ár og við séum enn ekki komin á lokapunkt,“ sagði Katrín.