Auglýsing

Kennari gagnrýnir að „léleg og einhæf“ próf séu orðin forsenda inntöku í framhaldsskóla

Kennarinn Ragnar Þór Pétursson gagnrýnir harðlega að framhaldsskólar megi nú gera samræmd próf í 9. bekk að forsendu inntöku. Hann segir þetta þvert á yfirlýsingar sem gáfu í skyn að engar svona breytingar væru í farvatninu og sakar litla einræðisklíku sem stjórnar menntamálum á Íslandi um að snúa skólakerfið niður í forina á glæpsamlegan hátt.

Þetta kemur fram í pistli Ragnars á Stundinni. Þar vísar hann í frétt Morgunblaðsins í gær þar sem kemur fram að nú ráði skólarnir sjálfir hvort þeir nýti sér einkunnir úr samræmdu prófunum í 9. bekk til þess að greina á milli væntanlegra nýnema.

„Ákveði þeir það, þarf það hins vegar að vera tekið fram í inntökuskilyrðum þeirra, sem birt eru á heimasíðum skólanna,“ segir í umfjöllun Morgunblaðsins.

Samræmd próf hófust í gær og Ragnar bendir á í pistlinum á Stundinni að breytingin hafi hvorki verið kynnt fyrir nemendum né foreldrum fyrr en fyrsta prófdaginn og það aðeins í Morgunblaðinu.

„Það er ekki aðeins svo að þetta gerist án faglegrar umræðu, þetta gerist þvert á yfirlýsingar sem gáfu í skyn að engar svona breytingar væru í farvatninu,“ segir Ragnar.

Það er vesælt menntakerfi sem misvitrir embættis- og stjórnmálamenn geta ráðskast með að eigin vild án þess svo mikið sem að þurfa að taka umræðu um hugmyndir sínar. Það eru aum yfirvöld sem gera stefnubreytingar í kyrrþey og þræta jafnvel fyrir þær.

Ragnar segir að það síðasta sem menntakerfið þurfi sé að eldgamlar einkunnir nemenda á lélegum og einhæfum prófum verði stóri dómur um möguleika þeirra á framhaldsskólavist. „Þótt ekki væri annað mun þetta hertaka kennslu í 7. og 8. bekk sem mun hér eftir miða að því að toppa á þessum prófum í 9. bekk,“ segir hann.

„Námskráin verður svelt og að henni þrengt til að sinna aðeins þeim þrönga hluta náms sem þessi próf megna að mæla með sæmilegu viti. Nemendur verða enn frekar sviknir um list- og verknám. Meiri tími fer í andlaust stagl og tafs og minni í sköpun, samvinnu og hina frjóu þætti náms. Áhrifin á skólastarf eiga svo eftir að koma í ljós.“

Ragnar segir í pistli sínum að nemandi sem leggur mikið á sig til að toppa á samræmdum prófum í 9. bekk muni hafa lítinn hvata til að bæta sig eftir það.

„Alveg eins og nemandi sem stendur höllum fæti í 9. bekk mun engan möguleika eiga á skólavist í ákveðnum skólum þótt hann stórbæti sig eftir það,“ segir hann.

„Af langri reynslu veit ég að tíminn frá 9. og fram að útskrift er mikill uppgangstími, sérstaklega hjá drengjum, sem margir hrökkva þá í gang, öðlast tilgang í námi og sjálfsaga og leggja grunn að traustum námsferli.

Það er algjörlega óboðlegt að litla einræðisklíkan sem stjórnar menntamálum á Íslandi í krafti áhugaleysis stjórnmálanna fái að snúa skólakerfið niður í forina þar sem lágfleygustu fuglar íslenskrar menntapólitíkur hafa gert sér hreiður í leðjunni. Það er í raun glæpsamlegt.“

Smelltu hér til að lesa pistil Ragnars á Stundinni.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing