KitchenAid hrærivélin sem seld er á tæpar 52 þúsund krónur í Costco í Kauptúni er ekki af sömu tegund og vélarnar sem hafa verið vinsælar á Íslandi í mörg ár. Hún er kraftminni og er þar að auki ódýrari hjá Kaupfélagi Skagfirðinga á Sauðárkróki.
Vélin sem er seld í Costco heitir KitchenAid Classic og er með 250 Watta mótor. Vélin sem er að finna á mörgum íslenskum heimilum heitir Kitchenaid 175 og er með 300 Watta mótor og því heldur kraftmeiri.
Nútíminn hafði samband við Kaupfélag Skagfirðinga og fékk þær upplýsingar að KitchenAid Classic hafi lengi verið á þessu verði, þ.e. rétt tæplega 50 þúsund krónur. Lítið hafi aftur á móti selst af henni og hefur hin „hefðbundna“ vél verið mun vinsælli. Hvít KitchenAid 175 kostar rétt tæplega 90 þúsund í versluninni eins og í hjá Einari Farestveit sem er með umboðið fyrir KitchenAid á Íslandi.