Kjartan Magnússon fékk ekki að nota glærur á borgarstjórnarfundi í gær. Sóley Tómasdóttir, forseti borgarstjórnar, sagði að því miður væri ekki hægt að framkvæma skyndihugdettur. Þetta kemur fram á vef Sjálfstæðisflokksins.
Nútíminn greindi frá því í gær að Halldór Halldórsson hafi notað glærur á fundinum og að viðstaddir hafi litið á það sem mikla byltingu.
Tillagan sem Kjartan ætlaði að sýna á myndrænan hátt fjallaði um bætt göngutengsl barna og unglinga við Hringbraut. Hann lýsti yfir vonbrigðum sínum með ákvörðun Sóleyjar, að hafna glærunotkuninni:
Með þessari tillögu að þá ætlaði ég að gefa borgarfulltrúum og öðrum kost á að sjá nokkrar glærur og myndir sem skýra tillöguna og tilgang hennar mjög vel út og var á fundinum búinn að fá samþykki forseta borgarstjórnar fyrir því að það væri hægt en þetta leyfi var svo afturkallað með einhverjum tæknilegum röksemdum sem ég get ekki alveg fallist á. Þetta snerist um að tengja tölvu og skjávarpa sem flestir vita að hefði einungis tekið nokkar sekúndur.
Sóley sagði að í þessu dæmi þótti því miður ekki við hæfi að hafa hlé á fundi borgarstjórnar til að framkvæma skyndihugdettu.
Fylgdu Nútímanum á Facebook og Twitter og þú missir ekki af neinu.