Eins og við greindum frá í gær hafa dýraverndunarsamtökin Reykjavík Animal Save boðað mótmæli fyrir utan höfuðstöðvar Sláturfélags Suðurlands í lok vikunnar til að mótmæla haustslátrun á lömbum. Mótmælin virðast hafa farið öfugt ofan í marga því nú hefur verið boðað til mótmæla á sama tíma á sama stað. Nú til að mótmæla mótmælunum.
Sjá einnig: Boða til mótmæla fyrir utan höfuðstöðvar SS – Hvetja þátttakendur til að koma með myndavélar og spritt
Yfir 1000 manns hafa lýst yfir áhuga á mótmælunum í viðburði sem gerður var á Facebook. „Mæli með að allir mæti planið er að hafa grill og fjör á meðan við mótmælum, mótmælum vegan fólksins,“ skrifar skipuleggjandinn Björn Aron.
Nokkuð heitar umræður hafa skapast á Facebook-síðu viðburðarins þar sem sitt sýnist hverjum. „Ég borða kjöt, en svona botnvitlaust dæmi lætur mig standa veganmegin við girðingu. Mikið svakalega hljótið þið að vera hræddir við grasætur,“ skrifar einn. Annar notandi veltur upp aldri og þroska skipuleggjandans. „Ertu ekki pottþétt orðinn sjálfráða og farinn að fjölga þér???“
Mótmæli Reykjavík Animal Save fara fram föstudaginn 5. október og hvetja skipuleggjendur þeirra mótmæla þátttakendur til að koma með myndavélar, spritt eða lög til að syngja fyrir dýrin eða starfsmenn.