Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fékk tilkynningu þess efnis að ungir krakkar hefðu klifrað upp á þakið á Háskólabíó í gærkvöldi. Samkvæmt upplýsingum úr dagbók lögreglunnar voru foreldrar umræddra krakka fengin til þess að sækja þau en málið er sagt „afgreitt með aðkomu foreldra“ í dagbókarfærslunni.
Þá var einn aðili handtekinn í miðbænum vegna líkamsárásar og var hann vistaður í fangaklefa í þágu rannsóknar málsins.
Ung og ofurölvi
Þá var ungri stúlku komið til aðstoðar í Kópavogi en henni var komið til síns heima af laganna vörðum þar sem móðir hennar tók á móti henni og má sterklega búast við því að það verði ekki gaman fyrir hana að vakna í fyrramálið.
Einn ökumaður var stöðvaður vegna gruns um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna í Grafarholti en við nánari skoðun kom í ljós að ökumaðurinn var ekki bara réttindalaus heldur var einnig með fíkniefni á sér og er hann grunaður um sölu og dreifingu slíkra efna.