Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu telur sig vera komna með ágæta mynd af atburðum í tengslum við andlát tíu ára stúlku sem fannst látin í Krýsuvík á sunnudagskvöld. Faðir stúlkunnar hefur ekki verið yfirheyrður síðan á sunnudag en hann er talinn hafa ráðið henni bani.
Þetta segir Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn miðlægrar rannsóknardeildar Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við Vísi.
Grímur segir að rannsókn málsins miði nokkuð vel og nokkrir hafi verið yfirheyrðir í tengslum við hana. Aðeins einn hafi stöðu sakbornings, það er faðir stúlkunnar.
„Við erum komnir með ágæta mynd en við vinnum áfram að því að skýra heildarmyndina,“ segir Grímur í samtali við Vísi og tekur fram að krufningu líks stúlkunnar, Kolfinnu Eldeyjar Sigurðardóttur, sé ekki enn lokið. Því sé ekkert unnt að gefa upp um mögulegt morðvopn.
Þá kemur fram í frétt Vísis að það verði sennilega gert ef og þegar ákæra verður gefin út í málinu.