Auglýsing

Kona fer í stríð hlaut Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs

Kvikmynd Benedikts Erlingssonar, Kona fer í stríð, hlaut í gær Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs 2018. Verðlaunin hafa verið veitt framúrskarandi kvikmyndum Norðurlandaþjóðanna síðan 2002 en þetta er í þriðja sinn sem íslensk kvikmynd hlýtur þessi verðlaun. Verðlaunin unnu kvikmyndirnar Hross í oss, einnig eftir Benedikt Erlingsson árið 2014, og árið 2015 fóru verðlaunin til Dags Kára fyrir kvikmyndina Fúsi.

 

Kvikmyndin hefur farið sigurför um Evrópu og hlotið einróma lof gagnrýnenda sem endurspeglast í verðlaunaafhendingunni en Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs eru þau eftirsóttustu í Norður-Evrópu.

Verðlaunaafhendingin fór fram í Óperunni í Osló og tóku þar á móti verðlaununum leikstjórinn Benedikt Erlingson, sem einnig er handritshöfundur, ásamt meðhandritshöfundi sínum Ólafi Agli Egilssyni og framleiðendum kvikmyndarinnar, þeim Marianne Slot og Carine Leblanc. Ásamt sigurtitlinum eru verðlaunin 350 þúsund danskar krónur eða rúmar 6,4 milljónir íslenskra króna sem skiptast jafnt á milli leikstjóra, handritshöfunda og framleiðenda. Skipting verðlaunafésins undirstrikar megináherslur Kvikmyndaráðsins að kvikmyndagerð sem listgrein byggist að fremstu megni á einlægri samvinnu milli leikstjóra, handritshöfunda og framleiðenda.

Kvikmyndin Kona fer í stríð fjallar um Höllu, ötulla baráttukonu umhverfismála, þó komin sé á fimmtugsaldurinn. Halla lifir rólyndislífi og grunar hana enginn um græsku þegar hún tekur upp á því að segja áliðnaði Íslands stríð á hendur.

Í úrskurði dómnefndar kemur meðal annars fram að Kona fer í stríð hafi hlotið verðlaunin fyrir framúrskarandi meðferð á annars hápólitísku viðfangsefni og djarfmannlega leikstjórn Benedikts sem dómnefndinni þykir speglast í aðalsöguhetju kvikmyndarinnar, henni Höllu sem leikin er af Halldóru Geirharðs.

Bíó Paradís hefur aftur sýningar á Kona fer í stríð á næstu dögum, með enskum texta.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing