Edduverðlaunahátíðin fór fram með glæsibrag í Austurbæ í kvöld. Íslenska kvikmynda- og sjónvarpsakademían stendur fyrir verðlaununum sem halda upp á tuttugu ára afmæli sitt í ár og veitt eru verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í íslensku sjónvarpi og kvikmyndum síðasta árs.
Íslensk kvikmynda og sjónvarpsgerð er á miklu blómaskeiði um þessar mundir og úr stórgóðum kvikmyndum og sjónvarpsefni að velja. Kvikmyndin Kona fer í stríð var sigursælust.
Kvikmyndin Kona fer í stríð, í leikstjórn Benedikts Erlingssonar hlaut alls 10 tilnefningar til Edduverðlauna þetta árið og fór heim með jafn margar styttur. Kona fer í stríð hefur farið sigurför um heiminn og hlotið fjöldan allan af verðlaunum út um allan heim og var framlag Íslands til Óskarsverðlaunanna í ár. Meðal verðlauna sem kvikmyndin sópaði að sér var besta kvikmynd ársins, leikstjóri ársins, leikkona ársins og klipping ársins. Kvikmyndin Lof mér að falla, eftir Baldvin Z. fylgdi hlaut næstflest verðlaun en Lof mér að falla vann fern verðlaun úr þeim tólf flokkum sem hún var tilnefnd til.
Leikarar ársins voru Gísli Örn Garðarsson, fyrir leik sinn í Vargur og Halldóra Geirharðsdóttir fyrir tvöfaldan leik sinn í Kona fer í stríð. Aukaleikarar ársins voru Kristín Þóra Halldórsdóttir, fyrir túlkun sína á Magneu í Lof mér að falla og Þorsteinn Bachmann fyrir hlutverk sitt sem faðir Magneu úr Lof mér að falla. Ræða Kristínar Þóru vakti mikla athygli þar sem hún biðlaði til stjórnvalda í tilfinningaþrunginni ræðunni að „drullast til að gera eitthvað“ í málum fíkla og fíknisjúkra. Þá hlaut Lof mér að falla einnig verðlaun í flokki búninga og gerva sem voru í höndum Evu Völu Guðjónsdóttir og Kristínar Júllu Kristjánsdóttir.
Sjónvarpsmaður ársins var Sigríður Halldórsdóttir fyrir fréttaskýringaþáttinn Kveik en Kveikur var valinn frétta- og viðtalsþáttur ársins sem og hlaut verðlaun fyrir sjónvarpsefni ársins.
Heiðursverðlaun kvöldsins voru veitt Agli Eðvarðssyni en Egill er einn reyndustu kvikmynda- og sjónvarpsgerðarmanna landsins. Egill hefur lengst af starfað fyrir Ríkissjónvarpið, m.a. sem upptökustjóri. Egill hefur tæplega fimmtíu ára reynslu en Hlín Jóhannesdóttir formaður ÍKSA, veitti Agli verðlaunin við mikinn fögnuð viðstaddra.
Hér má sjá sigurvegara kvöldsins:
BARNA- OG UNGLINGAEFNI
Lói – þú flýgur aldrei einn
Framleitt af GunHil
FRÉTTA- EÐA VIÐTALSÞÁTTUR
Kveikur
Framleitt af RÚV
Arnar Þórisson
HEIMILDAMYND
UseLess
Framleidd af Vesturporti og Vakanda
Rakel Garðarsdóttir og Ágústa M. Ólafsdóttir
KVIKMYND ÁRSINS
Kona fer í stríð
Framleitt af Gulldrengnum og Slotmachine
Benedikt Erlingsson, Marianne Slot og Carine Leblance
LEIKIÐ SJÓNVARPSEFNI
Mannasiðir
Framleitt af Glassriver og RÚV
Arnbjörg Hafliðadóttir
MENNINGARÞÁTTUR
Fullveldisöldin
Framleitt af Sagafilm og Margréti Jónasdóttur fyrir RÚV
MANNLÍFSÞÁTTUR
Líf kviknar
Framleitt af Sagafilm fyrir Sjónvarp Símans
SKEMMTIÞÁTTUR
Áramótaskaup 2018
Framleitt af Glassriver fyrir RÚV
Andri Ómarsson og Arnbjörg Hafliðadóttir
STUTTMYND ÁRSINS
Nýr dagur í Eyjafirði
Framleidd af Republik
Lárus Jónsson
BRELLUR
Cem Olcer, Stephane Vogel og Annabelle Zoellin
fyrir Kona fer í stríð
BÚNINGAR
Eva Vala Guðjónsdóttir
fyrir Lof mér að falla
GERVI
Kristín Júlla Kristjánsdóttir
fyrir Lof mér að falla
HANDRIT
Benedikt Erlingsson og Ólafur Egill Egilsson
fyrir Kona fer í stríð
HLJÓÐ
Aymeric Devoldere, Francois De Morant, Raphael Sohier og Vincent Cosson
fyrir Kona fer í stríð
KLIPPING
Davíð Alexander Corno
fyrir Kona fer í stríð
KVIKMYNDATAKA
Bergsteinn Björgúlfsson
fyrir Kona fer í stríð
LEIKARI Í AÐALHLUTVERKI
Gísli Örn Garðarsson
fyrir Varg
LEIKKONA Í AÐALHLUTVERKI
Halldóra Geirharðsdóttir
fyrir Kona fer í stríð
LEIKKONA Í AUKAHLUTVERKI
Kristín Þóra Haraldsdóttir
fyrir Lof mér að falla
LEIKARI Í AUKAHLUTVERKI
Þorsteinn Bachmann
fyrir Lof mér að falla
LEIKMYND
Snorri Freyr Hilmarsson
fyrir Kona fer í stríð
LEIKSTJÓRN
Benedikt Erlingsson
fyrir Kona fer í stríð
SJÓNVARPSMAÐUR ÁRSINS
Sigríður Halldórsdóttir
fyrir Kveik
TÓNLIST
Davíð Þór Jónsson
fyrir Kona fer í stríð
UPPTÖKU- EÐA ÚTSENDINGASTJÓRN
Björgvin Harðarson
fyrir Pál Óskar í Höllinni
SJÓNVARPSEFNI ÁRSINS
Kveikur
RÚV
Nútíminn óskar vinningshöfum innilega til hamingju með kvöldið!