Auglýsing

Konum verður boðið á ráðstefnu Gunnars Braga

Konum verður boðið að sitja jafnréttisráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, sem Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra boðaði á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í gær.

„Tilgangur ráðstefnunnar er ekki að hafna aðkomu kvenna,“ segir  sendiherrann Henry L. Mac Donald, fulltrúi Súrínam, sem skipuleggur ráðstefnuna ásamt Íslendingum, í viðtali við Newsweek. Hann segir tilganginn að skapa vettvang fyrir karlmenn til að tala sín á milli um hvernig skal binda endi á ofbeldi gegn konum.

Gagnrýni á ráðstefnuna hófst nánast um leið og Gunnar Bragi sleppti orðinu í gær og Mac Donald játar að hafa heyrt gagnrýni frá kvenkyns kollegum sínum. Hann segir að konur taki þátt í ráðstefnunni:

Málið er ekki að konum verði ekki boðið að taka þátt, heldur verður lögð áhersla á að fá karlmenn og drengi til að taka þátt í umræðunni. Þetta verða ekki bara karlmenn, konur taka þátt.

Gunnar Bragi, segir í viðtali við Newsweek, að óvíst sé hvernig aðkoma kvenna verði að ráðstefnunni. Hann segir að gagnrýnin hafi ekki komið sér á óvart og veltir fyrir sér hvort það sé vegna þess að karlaráðstefna sé fólki framandi.

„Ef við ætlum að gera breytingar, eins og ná fram jafnrétti eða binda endi á ofbeldi gegn konum verðum við, karlmennirnir, að vera tilbúnir og til í að tala um það. Við erum hluti af vandamálinu og verðum að vera hluti af lausninni,“ sagði Gunnar Bragi.

Mac Donald segir að fullyrðingar um að ráðstefnan væri ætluð karlmönnum hafi verið til að vekja athygli karlmanna á málefninu. Ráðstefnan er kölluð „barbershop“ eða „rakarastofan“ og Mac Donald segir það vera vegna þess að þar hittist karlmenn og ræði málin.

„Sem karlmaður þá veit ég að á rakarstofunni ræðum við þrjú mál: Íþróttir, pólitík og konur. En aldrei ofbeldi gegn konum,“ sagði Mac Donald.

Ráðstefnan fer fram í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York í janúar á næsta ári.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing