Kvennafrídagurinn verður haldinn hátíðlegur í ár, með breyttum áherslum í ljósi #MeToo byltingarinnar. Konur eru hvattar til að leggja niður störf á miðvikudaginn kl. 14:55, og sameinast á samstöðufundi á Arnarhóli kl. 15:30. Frá þessu er greint á heimasíðu kvennafrídagsins.
Sjá einnig: Mikill meirihluti landsmanna segir #MeToo umræðuna jákvæða fyrir samfélagið
Fundurinn er í ár haldinn undir kjörorðinu: Breytum ekki konum, breytum samfélaginu! Með þessu vilja samtök kvenna og launafólks ekki einungis vekja athygli á kynbundnum mun launatekna, heldur einnig á veikri stöðu kvenna á vinnumarkaði. Eins og segir á vefsíðu viðburðarins þá hafa atburðir síðasta árs varpað ljósi á mál kvenna sem hafa orðið fyrir kynbundnu áreiti og ofbeldi á vinnustöðum.