Körfuboltakonan Björg Einarsdóttir veiktist alvarlega af íþróttaátröskun og búlimíu í nóvember árið 2014. Um sumarið hafði hún lagt mikið á sig til að komast í gott form, ná betri árangri og bæta matarræðið, svo mikið að fólk tók eftir því og hrósaði henni mikið.
Þegar leið að jólaprófunum varð freistandi að grípa í óhollustu á löngum lestrarkvöldum. Eitt kvöldið, eftir langan dag í skólanum, fór Björg að hugsa um hvað hún hefði sett ofan í sig þann daginn og dagana á undan.
„Ég fékk algjört samviskubit og leið hræðilega, svona óhollusta myndi gera það að verkum að ég myndi fitna aftur og lenda í sama farinu. Ég ætti eftir að missa það sem ég var búin að leggja svo hart að mér yfir allt sumarið. Það sem ég gerði var að fara kolranga leið og kasta upp – og já, ég gerði það viljandi,“ segir Björg í samtali við Nútímann.
Í dag hefur Björg náð góðum bata og vill segja sögu sína í von um að opna umræðuna um átröskun, þá sérstaklega meðal íþróttafólks. „Íþróttir eru frábærar en þær geta verið erfiðar og tekið verulega á andlegu hliðina,“ segir Björg.
Hún lítur líka á þetta sem hluta af bataferlinu og vonast til þess að saga hennar hjálpi öðrum sem eru í sömu sporum.
Björg stundar nám í sálfræði við Háskólann á Akureyri og stefnir á dvöl í Bandaríkjunum á næstunni ásamt kærasta sínum sem er þar á skólastyrk.
Fannst hún aldrei nógu flott, aldrei nógu góð
Árið 2014 reyndist Björgu mjög erfitt. Fyrri hluta árs reyndi hún að jafna sig eftir sambandsslit og takast á við slæmt gengi meistaraflokks KR sem hún spilaði með.
„Þetta lagðist á andlegu hliðina og leiddi til mikillar vanlíðanar,“ segir Björg. Hún fór gjarnan út í ísbúð eða búð til að ná sér í kexpakka og lina þannig andlega sársaukann. Björg segist aldrei hafa verið í verra formi en vorið 2014 en það var þá sem hún ákvað að skipta um gír.
Hún léttist, styrktist og lagaði mataræðið um sumarið. Björg náði líka markmiði sem hún hafði stefnt að lengi, hún komst í úrtak fyrir A-landsliðið og spilaði sinn fyrsta A-landsleik.
„Það sem fáir vita er að mér hefur aldrei liðið jafn illa og haustið 2014. Það var samt sem áður þá sem ég var í mínu besta formi, átti mitt besta tímabil í körfunni og var endalaust hrósað af fólki sem sagði að ég liti vel út, að ég væri í góðu formi, ég væri búin að grennast og svo framvegis…,“ segir Björg.
Hún sá sig aftur á móti ekki sama ljósi.
„Mér fannst ég aldrei nóg, aldrei nógu flott, aldrei nógu góð inni á vellinum eða á æfingum, aldrei nógu klár í skólanum, svo dæmi séu nefnd. Í nóvember kom svo skellurinn,“ segir Björg.
Eins og segir hér að ofan var það þá sem Björg fór að kasta upp og fljótlega var hún farin að gera það á hverjum degi.
„Ég borðaði yfirleitt lítið yfir daginn og kom svo heim og kastaði öllu, því litla sem ég hafði í mig látið, upp. Pressan við það að missa ekki línurnar, missa ekki formið, hrósin og allt það, fékk mig til að leiðast út þennan veg. Svona gekk þetta í dágóðan tíma. Ég var með stjórn á þessu, að ég hélt,“ segir Björg.
Eftir hvert einasta skipti sem hún kastaði upp leit hún í spegil og spurði sjálfa sig hvað hún væri eiginlega að hugsa. Hún væri miklu betri manneskja en að gera sjálfri sér þetta og þetta yrði í síðasta skipti. Björg hélt samt áfram.
Sagði frá með tárunum í augunum, buguð og skömmustuleg
„Loksins sannfærði ég sjálfa mig um að það sem ég væri að gera sjálfri mér væri ekki rétt og ég þyrfti hjálp. Ég var ekki með stjórn á ástandinu og ég þyrfti aðstoð. Ég var ekki að fara að tækla þetta ein. Eitt kvöldið fékk ég sjálfa mig til að segja frænku minni frá, með tárin í augunum, buguð og skömmustuleg,“ segir Björg.
Eftir þetta sagði hún fjölskyldu sinni og nánustu vinum líka frá. Öll voru þau sammála um að Björg þyrfti á hjálp að halda og fór hún því til sálfræðings sem greindi hana með íþróttaátröskun og búlimíu á alvarlegu stigi, og rúmlega það.
Hún ræddi málið einnig við Finn Frey Stefánsson sem þjálfaði hana þegar hún spilaði með meistaraflokki KR. Hann var henni innan handar og er Björg ánægð að hafa sagt honum frá veikindunum.
„Vanlíðanin, óöryggið, pressan sem ég setti á sjálfa mig um að uppfylla einhverja staðla og kröfurnar í einu og öllu voru svo yfirþyrmandi að ég brotnaði algjörlega undan öllu. Mér leið illa og það var það sem kom átröskuninni af stað,“ segir Björg.
Veikindin komu fjölskyldu og vinum Bjargar verulega á óvart og var þeim mjög brugðið. „Ég var bara ósköp venjuleg stelpa og sterkur persónuleiki,“ segir hún.
Björg segir að það hafi komið henni í gegnum veikindin að tala hreinskilningslega um málið.
„Ef mig langaði að kasta upp þá ákvað ég að hringja í vin sem hefur verið að glíma við það sama. Það var ótrúlega gott að geta talað um þetta. Ég held að það hafi átt stóran þátt í batanum, að geta talað um þetta í staðinn fyrir að framkvæma,“ segir Björg.
Hún hélt áfram að hitta sálfræðinginn og reyndi líka að halda sig frá sætindum eða öðru sem gæti fengið samviskubitið til að banka upp á.
„Það var mjög gott að fjölskyldan vissi þetta, maður gat alltaf opnað sig. Svo er ég með yndislegum strák sem er búinn að styðja mig í gegnum þetta. Það er svo mikilvægt að fjölskyldan, vinur, eða þjálfari, sé meðvitaður um þetta ástand og hvað sé að gerast,“ segir Björg.
Hún leggur mikla áherslu á að segja frá.
„Trúið mér, ég veit hvað það er erfitt að segja frá þessu. Eins og ég sagði áðan, maður heldur að maður hafi stjórn á þessu, þangað til því miður fleiri en færri missa stjórn og þá er það orðið of seint. Þið sem eruð að glíma við sama sjúkdóm og ég, það mun enginn dæma ykkur, það munu allir vilja styðja við bakið á ykkur og hjálpa ykkur að ná bata. Ef þau gera það ekki mun ég svo sannarlega gera það. Við eigum ekki að þurfa að skammast okkar og glíma við þetta ein,“ segir Björg.
Kærasti Bjargar hefur staðið eins og klettur við hlið hennar.
Tæplega tvö ár liðin frá því að hún kastaði síðast upp vegna sjúkdómsins
Björg hefur náð góðum bata í dag en er mjög meðvituð um að hún gæti veikst aftur.
„Átröskunarröddin er enn á bak við eyrað og klikkar alveg inn öðru hvoru og minnir mig til dæmis á allar smákökurnar og matinn sem ég borðaði um jólin. Ég næ samt alltaf að hunsa hana. Ég er mjög meðvituð um mitt ástand og hvernig ég á að hafa stjórn á því,“ segir Björg.
Hún bendir á að fólki sem hafi einu sinni veikt af átröskun sé hættara við að veikjast aftur, verði það fyrir áfalli af einhverjum toga. „Það hefur alveg komið upp áfall, en þá fór ég strax og spjallaði við sálfræðing. Bara til þess að kíkja í spjall, ekki af því að ég var komin á slæman stað,“ útskýrir Björg.
Hún myndi vilja að íþróttafólk hefði almennt greiðari aðgang að sálfræðingum og öðru fagfólki. Hún bendir sem dæmi á erfiða tímabilið sem hún átti með meistaraflokki KR, þá hefði liðið haft gott af því að ræða við sálfræðing.
Björg segist að sumu leyti vera orðin sátt við að hafa veikst og bendir á að það gæti kannski hljómað skringilega í eyrum einhverra.
„Ég þekki sjálfa mig mun betur og er ótrúlega stolt af sjálfri mér og hversu langt ég hef komist áfram við það að sigrast á þessu. Ég hef komist að því að ég er nóg og þarf ekki að sanna það fyrir neinum öðrum. Ég hef sannað það fyrir sjálfri mér og það er nóg. Í dag er ég góð og lifi heilbrigðum lífsstíl,“ segir Björg en það eru tæplega tvö ár síðan hún kastaði síðast upp vegna sjúkdómsins.