Það bregður eflaust einhverjum að fara inn á kortavefinn Map.is en þar sést Argentína við hlið Íslands á Atlantshafinu. Löndin eru þar að auki skreytt fánalitum en ekki landslagi.
Það þarf þó ekki að óttast þetta því þarna eru einungis kortagerðarmenn Loftmynda ehf að bregða á leik.
Örn Arnar Ingólfsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Loftmynda, segir í samtali við mbl.is að mikil stemmning sé komin á vinnustaðinn og menn séu að missa sig í veðmálum og öðru slíku en það sé bara gaman.
Hann bætir við að vefsíðan hafi fengið fyrirspurn frá Svisslendingi sem vildi forvitnast til um hvort kortagerðarfyrirtækið væri orðið svo þjóðernissinnað að setja landið í fánalitina en Örn segir hann hafa tekið vel í grín starfsmanna þegar hann hafi fengið að þetta væri tímabundið út af HM.