Auglýsing

Kraninn féll þar sem röðin á Bæjarsins bestu er venjulega, viðskiptavinur varaði Skúla við

Skúli „mennski“ Þórðarson var að afgreiða í vagni Bæjarins bestu við Tryggvagötu þegar byggingarkrani hrundi á hús sem verið er að byggja við Hafnarstræti 17-19.

„Ég sé ekki neitt, var staddur inni í vagninum,“ segir Skúli í samtali við Nútímann.

Ég heyri þegar hlassið dettur í krananum, heyri dynkinn. Skömmu áður hafði viðskiptavinur fyrir framan vagninn verið að vara við en ég áttaði mig ekkert á því um hvað hann var að tala fyrr en þetta var dottið.

Sjá einnigBæjarins bestu slapp naumlega þegar byggingarkrani hrundi: „Hefði getað endað með hörmungum“

Skúli segir að honum hafi brugðið en meira eftir á þegar honum var ljóst hversu illa hefði geta farið. Timburhlassið sem datt úr krananum féll um metra frá vagninum og kraninn sjálfur á staðinn þar sem venjulega er margt um manninn, þar sem viðskiptavinir standa í röð.

Mildi þykir að fáir hafi verið við vagninn þegar slysið varð. Tveir stóðu í röð og tvær unglingsstúlkur sátu á bekk fyrir utan. „Þeim var mjög brugðið en þær náðu að hlaupa í burtu. Ég myndi segja að þær hafi verið í mestri hættu,“ segir Skúli.

Vagninn er lokaður sem stendur og búið að girða svæðið af. Skúli átti að standa vaktina til kl. 15 og mun hann því líklega ekki mæta aftur til vinnu fyrr en á laugardag, þegar hann á næstu vakt. Hann segist ekki vera banginn við að mæta til starfa á ný.

„Það er mikil mildi að þetta gerðist ekki seinna um daginn, klukkan var ekki orðin tólf. Kraninn sjálfur dettur þar sem venjulega er röð. Ef þetta hefði gerst á háannatíma hefði getað farið mjög illa,“ segir Skúli.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing