Lögmenn þingmanna Miðflokksins kröfðust þess að Bára Halldórsdóttir yrði látin greiða að minnsta kosti 100 þúsund krónur í sekt fyrir að hafa hljóðritað samskipti þingmannanna á Klaustri bar á síðasta ári. Þetta kemur fram á vef Stundarinnar í dag.
Á vef Stundarinnar segir: „Lögmenn þingmanna Miðflokksins kröfðust þess í þremur bréfum til Persónuverndar að Bára Halldórsdóttir, kona með gigtarsjúkdóm sem reiðir sig á örorkubætur, yrði látin greiða stjórnvaldssekt.“
Persónuvernd varð ekki við kröfunni en í nýuppkveðnum úrskurði segir að Bára hafi brotið persónuverndarlög og henni hafi verið gert að eyða upptökunum en ekki verið gert að greiða sekt.
Í niðurstöðu Persónuverndar er litið til þess að ekki hafi verið sýnt fram á samverknað og að samræðurnar sem Bára tók upp hafi skapað mikla umræðu í samfélaginu um háttsemi þjóðkjörinna fulltrúa.