Hrafn Jónsson, betur þekktur sem Krummi, ætlaði aldrei að verða pistlahöfundur. Þegar hann var beðinn um að senda prufupistil til Kjarnans var hann hreinlega ekki viss um hvort hann væri skrifandi. Hann segist alltaf vera stressaður þegar hann skrifar pistlana og líður stundum eins og hann sé að kreista fram síðustu skoðanir sínar.
Kjarninn og Krummi stefna nú að því að gefa út alla pistla þess síðarnefnda í bókinni Útsýnið úr Fílabeinsturninum. Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, mun skrifa inngang að hverjum pistli til að setja þá í samhengi við þjóðfélagsumræðuna hverju sinni.
Safnað er fyrir útgáfu bókarinnar á hópfjármögnunarsíðunni Karolina Fund.
Eins og hann sé að kreista fram síðustu skoðanirnar
„Krummi eyddi gullárunum sínum í að vera latur, feitur og óöruggur. Eina skiptir sem hann hafði eignast peninga var eftir að hann varð fyrir strætisvagni og fékk miskabætur. Allt var þetta partur af hans púpunarferli og þegar Hrafn hóf að skrifa pistla fyrir Kjarnann í byrjun árs 2014 braust hann loksins út og breiddi út vængina eins og háruga, föla og sífellt verra tennta fiðrildið sem hann er,“ segir á söfnunarsíðunni um Krumma.
Breyttu pistlaskrifin lífi þínu?
„Ég myndi segja að þau hafi mótað mig, að þau hafi fleytt mér í nýjar og áhugaverðar áttir. Þetta hefur verið rosalega skemmtilegt,“ segir Krummi í samtali við Nútímann.
Vinkona Krumma vissi að Kjarninn ætlaði að fara að birta reglulega pistla og benti á hann. „Hún hafði séð mig bulla eitthvað á Facebook. „Ég vissi ekki hvort ég væri skrifandi yfir höfuð. Ég henti í eitthvað kjaftæði, þeim fannst það flott og pistillinn var birtur.“ segir hann.
Pistlar Krumma á Kjarnanum telja nú rúmlega 30 þúsund orð. Skrifin hafa tekið á, það hefur síður en svo verið auðvelt að koma pistlunum frá sér. Hann segir að stressið keyri hann áfram; óttinn við að pistillinn veki litla athygli, fái lítinn lestur og fáir læki hann. „Maður keyrir sig áfram til að gera sitt besta. Mér líður oft eins og ég sé að kreista fram síðustu skoðanirnar,“ segir Krummi.
Finnst að hann ætti að vera að sturla fólk
Pistlar Krumma á Kjarnanum fjalla um þjóðfélagsmál.
Á söfnunarsíðunni segir að hann hafi greint ælandi þingmenn í flugvél niður í öreindir, líkt vænissýki fyrrverandi forsætisráðherra við manngerðan köngulóarvef vitfirrings og greint stöðuna á hægri væng stjórnmálanna þannig að öðrum vængnum séu „menn eins og Þorsteinn Pálsson og Sveinn Andri, sem hafa ákveðið að Sjálfstæðisflokkurinn sé of sturlaður fyrir þá, og á hinum endanum eru öndvegismenn á borð við Jón Val Jensson og Snorra í Betel, sem finnst flokkurinn ekki vera nándar nærri nógu sturlaður.“
Áttu einhverja óvini eftir skrifa pistlanna?
„Það eru stóru vonbrigðin, ég er ekki búinn að vinna mér inn nógu marga óvildarmenn. Miðað við hversu rætinn maður hefur þótt vera. Kannski er það af því að maður skrifar í tón sem er ekki of alvarlegur, þá virðist fólk ekki vera að sturlast of mikið. Ég ætti samt að vera að sturla fólk,“ segir Krummi.
Vonast er til þess að bókin komi út í kringum Alþingiskosningarnar 29. október. Segist Krummi allavega ætla að halda áfram að bögga fólk þangað til að markmiðinu er náð. „Það væri rosalega slæmt fyrir egóið ef þetta næst ekki,“ segir hann.