Knattspyrnusamband Íslands (KSÍ) hefur ekki lokið við uppgjör vegna Evrópumóts karla í knattspyrnu sem fór fram í Frakklandi síðasta sumar. Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, staðfestir þetta í samtali við Nútímann.
Sambandið fékk tæpa tvo milljarða króna frá Evrópska knattspyrnusambandinu vegna árangurs íslenska liðsins í undankeppni og lokakeppni EM.
Birta þarf uppgjör þar sem kemur fram hvernig peningunum var ráðstafað í síðasta lagi viku fyrir ársþing KSÍ sem fer fram í Vestmannaeyjum 11. febrúar. Hið sama gildir um aðra peninga sem fara í gegnum sambandið.
Þegar uppgjörið liggur fyrir ákveður stjórn KSÍ hvenær það verður birt, þó eigi síðar en laugardaginn 4. febrúar.
Stjórn KSÍ fundaði síðast 15. desember. Fundargerð fundarins hefur ekki verið birt á vefsíðu sambandsins þar sem næsti fundur eftir hann hefur ekki verið haldinn.
Vísir greindi frá því í síðasta mánuði að Íslenskur Toppfótbolti, hagsmunasamtök félaganna í Pepsi-deild karla í knattspyrnu, hafi óskað eftir því við KSÍ að fá ítarlegt uppgjör á tekjum og útgjöldum vegna EM, ítarlegra en tíðkast í hefðbundnum ársreikningum.
Þar var rætt við Borghildi Sigurðardóttur, formanns samtakanna, en hún sagði að uppgjörið þyrfti að vera miklu sundurliðaðra en tekjur og gjöld.
„Það hefur gengið fjöllunum hærra að hinum og þessum hafi verið boðið út. Við bendum á að því gagnsærra sem uppgjörið er, því minni verður tortryggnin,“ sagði hún í samtali við Vísi.