KSÍ hefur hafið viðræður við EA Sports um að íslenska karla- og kvennalandsliðið verði með í tölvuleiknum FIFA 18. Þetta kemur fram á vef Viðskiptablaðsins.
Sjá einnig: BBC fjallar um stóra FIFA 17-málið, Geir segir að gagnrýnin eigi að beinast að EA Sports
Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ, segir í samtali við Viðskiptablaðið að viðræður séu á vingjarnlegum nótum og málin rædd á eðlilegan og heilbrigðan hátt. „Stóra málið er að við höfum hafið viðræður í dag eftir storminn í gær,“ segir hann.
Við höfum einsett okkur að ræða á uppbyggilegan hátt um þátttöku Íslands í FIFA 18, sem kemur út á næsta ári. Við óskuðum eftir því að auk karlalandsliðsins fengi íslenska kvennalandsliði einnig að vera með og höfum fengið jákvæð viðbrögð.
Nútíminn sagði fyrstur fjölmiðla frá málinu í gær. Í fréttinni kom fram að áhugi hafi verið fyrir því að hafa Ísland með í FIFA 17 en að samningar hafi ekki náðst milli tölvuleikjaframleiðandans EA Sports og KSÍ.
Geir sagði í samtali við Nútímann að EA Sports hafi boðið lága fjárhæð fyrir réttindin. Ekki er byrjað að ræða um peninga, samkvæmt mbl.is um málið, en EA Sports bauð KSÍ um 1,7 milljónir íslenskra króna fyrir réttinn á karlalandsliðinu í FIFA 17.
Hann fullyrðir í samtali við mbl.is að forsvarsmenn EA Sports gerir sér grein fyrir því að tilboð þeirra hafi verið á síðustu stundu og að þeir hefðu mátt standa betur að málum.