Knattspyrnusamband Íslands, KSÍ, ætlar að kolefnisjafna HM-ferðalag landsliðsins og aðstoðarmanna þess í Rússlandi. Þetta kemur fram á vefsíðu KSÍ og er gert í samstarfi við Votlendissjóðinn.
Formleg staðfesting á verkefninu fór fram á Bessastöðum í dag þegar Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands, Guðni Bergsson formaður KSÍ, Aron Einar Gunnarsson landsliðsfyrirliði og Ásbjörn Björgvinsson framkæmdastjóri Votlendissjóðsins hófust handa við að moka ofan í fyrsta skurðinn.
Það var Birna Sigrún Hallsdóttir, umhverfisverkfræðingur hjá Umhverfisráðgjöf Íslands ehf., sem átti hugmyndina að kolefnisjöfninni en hún tók sig til og reiknaði út þá losun gróðurhúsalofttegunda sem mun eiga sér stað vegna flugs og aksturs liðsins í ferðinni.
Heildarlosunin mun samkvæmt útreikningum Birnu samsvara 50 til 60 tonnum af koldíoxíði. Það er álíka mikið og árleg losun frá um það bil þremur hekturum af framræstu votlendi.
KSÍ samdi því við Votlendissjóð um að endurheimta samsvarandi flatarmál og emætti forseta Íslands leggur til votlendi í landi Bessastaða.
Framlag KSÍ nýtist þó ekki einungis til að kolefnisjafna Rússlandsferðina heldur einnig til að kolefnisjafna aðrar sambærilegar ferðir knattspyrnumanna og kvenna næstu tvö árin.
Knattspyrnusamband Íslands hefur ákveðið að kolefnisjafna ferð landsliðsins og aðstoðarmanna þess á HM í Rússlandi síðar í þessum mánuði í samstarfi við Votlendissjóðinn.https://t.co/5uR6bFyZqY pic.twitter.com/jTZpUvp8Xr
— Knattspyrnusambandið (@footballiceland) June 7, 2018