Kvikmyndin Blonde, sem segir frá ævi leikkonunnar Marilyn Monroe, hefur hlotið flestar tilnefningar til Razzie-verðlaunanna svokölluðu. Netflix-kvikmyndin margumtalaða hlaut átta tilnefningar og fast á hæla þeirrar myndar kemur myndin Good Mourning, gamanmynd með og eftir rapparann Machine Gun Kelly, með sjö tilnefningar. Ný kvikmynd Disney um Gosa hlýtur hlaut sex tilnefningar.
Razzie-verðlaunin eða Gyllta Hindberið (Golden Raspberry) eru verðlaun sem veitt eru fyrir verstu frammistöðu í kvikmyndum á árinu. Skipuleggjendur Razzie-verðlaunanna lýsa verðlaununum sem „ljóta frænda Óskarsverðlaunanna“, þar sem þeir „verðlauna“ það sem þeir telja verstu myndir ársins sem og verstu frammistöðu einstakra leikara í kvikmyndum ársins. Verðlaunin verða afhent 11. mars, degi á undan Óskarsverðlaunahátíðinni.
Athygli vekur að stórleikarinn Tom Hanks hlýtur þrjár tilnefningar, meðal annars fyrir frammistöðu sína í Elvis. Myndin Elvis, í leikstjórn Baz Luhrmann, hefur annars hlotið góða dóma og hlaut meðal annars níu tilnefningar til BAFTA-verðlauna. Þá hlaut Austin Butler, aðalleikari myndarinnar, Golden Globe-verðlaun sem besti leikari í aðalhlutverki.
Sjá einnig: Marilyn heillar enn