Hin sænska Eva Råberg hætti á Facebook í vikunni með aðferð sem hefur vakið ahygli víða um heim. Hún beraði brjóstin og sendi samfélagsmiðlinum fingurna vegna tvískinnungs um hvaða efni má birta á Facebook.
Yfirlýsingu hennar má sjá hér á ensku.
Eva var ekki bara að gagnrýna að karlar megi birta myndir af sér berum að ofan en ekki konur. Hún var einnig að gagnrýna að rasistahópar séu óáreittir á meðan myndum af brjóstum kvenna er eytt.
Eva er textahöfundur á sænsku auglýsingastofunni Forsman & Bodenfors sem er þekktust fyrir herferðina „Epic Split“ fyrir Volvo. Jean Claude van Damme var í aðalhlutverki í stórkostlegri auglýsingu í herferðinni sem sló í gegn um allan heim.
Hún segir í samtali við vefmiðilinn AdFreak að hún vildi vekja athygli á málefnum flóttafólks frá Sýrlandi og umræðunni um fólkið á samfélagsmiðlum. „Fólk er bókstaflega að reyna að bjarga lífi sínu með því að flýja frá Sýrlandi og margir enda í Svíþjóð,“ segir hún.
Það er fólk hérna sem er á móti þessu. Þau eru svo mikið á móti þessu að það hefur verið kveikt í flóttamannabúðum. Nú deila hópar á Facebook upplýsingum um hvar fleiri flóttamannabúðir er að finna og maður þarf ekki að vera klár til að átta sig á því að það er verið að hvetja fólk til að kveikja í.
Eva segir að margir hafi tilkynnt þessa hópa til Facebook og allir fái sömu svör um að hóparnir brjóti engar reglur. „Þannig að þau geta haldið áfram að dreifa rasisma,“ segir hún.
Hún segir að ef Facebook ætlar að leyfa þessum hópum að hvetja til ofbeldis eigi hún að geta birt mynd af berum brjóstum sínum á samfélagsmiðlinum. „Það er ekkert leyndarmál að Facebook er mjög stíf varðandi aðra hluti, eins og til dæmis nekt,“ segir hún.
„Og það er í góðu lagi, þó mér persónulega finnist það heimskulegt. Þannig að ég ákvað að birta yfirlýsingu með mynd af mér á brjóstunum um málefni flóttafólks.“
Nýtt á Nútímanum: Við spurðum Áslaugu og Unu út í sex hitamál og gáfum þeim nokkrar sekúndur til að svara
Facebook eyddi myndinni eftir nokkra klukkutíma. „Semsagt, á Facebook er í lagi að hvetja til ofbeldis og rasisma en það má ekki birta mynd af geirvörtum kvenna,“ segir Eva að lokum.