Hæstiréttur hefur úrskurðað að maður sem setið hefur í gæsluvarðhaldi síðan þann 22. júlí skuli áfram vera í varðhaldi eða til 15. september næstkomandi.
Maðurinn hefur viðurkennt að hafa kveikt í bíl við sjúkrahúsið Vog og reynt að kveikja í mottu í fjölbýlishúsi í Breiðholti. Það er Vísir.is sem greinir frá þessu.
Maðurinn gaf þær skýringar að hann hafi verið ósáttur við að fá ekki innlögn á Vog sem er meðferðarstofnun á vegum SÁÁ.
Lögreglan lítur málið alvarlegum augum og telur að maðurinn hafi með athæfi sínu skapað almannahættu. Það er því mat lögreglu að nauðsyn sé til að maðurinn sæti áframhaldandi gæsluvarðhaldi á grundvelli almannahagsmuna.