GPS-mælingar á Svartsengissvæðinu sýna vísbendingar um að undanfarið hafi smám saman dregið úr hraða á landrisi. Líkanreikningar, sem byggðir eru á GPS-gögnunum, sýna einnig vísbendingar um að örlítið dragi úr kvikuinnflæði undir Svartsengi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands.
Að svo stöddu eru þetta litlar breytingar og áður hafa sambærilegar breytingar orðið á hraða kvikusöfnunarinnar nokkrum vikum fyrir síðustu gos. Náið verður fylgst með mælingunum næstu daga og vikur sem hjálpa til við túlkun og að spá fyrir um mögulega þróun atburðanna.
Á þessum tímapunkti er ekkert í gögnum Veðurstofunnar sem bendir til þess að kvikusöfnun undir Svartsengi komi til með að hætta á næstunni.
Frá síðustu goslokum (5. september) hefur verið lítil jarðskjálftavirkni á Sundhnúksgígaröðinni en þar hafa einungis um 40 smáskjálftar mælst. Á sama tíma hefur verið jöfn virkni í vestanverðu Fagradalsfjalli, þar sem hátt í 400 smáskjálftar hafa mælst (<M1,5), flestir á 6-8 km dýpi, . Þessi smáskjálftavirkni hefur verið viðvarandi frá því að jarðhræringar hófust á Sundhnúksgígaröðinni.