Poppstjarnan Lady Gaga hefur glímt við áfallastreituröskun frá því að henni var nauðgað þegar hún var nítján ára.
Hún greindi frá þessu þegar hún heimsótti stað þar sem ungir samkynhneigðir, tvíkynhneigðir og transfólk sem eiga ekki heimili geta leitað skjóls í síðasta mánuði.
Söngkonan greindi fyrst opinberlega frá nauðguninni fyrir tveimur árum en hún er þrítug í dag. Þá sagðist hún kenna sjálfri sér um og sjö ár liðu þangað til að hún deildi sögu sinni með neinum.
Í sjónvarpsviðtali sem hún fór í vegna heimsóknarinnar sagði hún: „Ég glími við andleg veikindi, ég er með áfallastreituröskun. Ég hef aldrei sagt neinum það áður.“
Í heimsókninni sagði hún unglingunum að áfallið sem hún varð fyrir hafi hjálpað henni að skilja aðra. Hún sagðist stunda hugleiðslu og það hjálpaði henni við að róa sig niður.