Hópur þingmanna undir forystu Kristjáns L. Möller hefur lagt fram þingsályktunartillögu um fjármögnun byggingar nýs Landspítala. Í tillögunni er lagt til að Alþingi kjósi nefnd sex þingmanna úr öllum flokkum sem myndu vinna með stjórnvöldum að því að fylgja eftir ályktun Alþingis um byggingu nýs Landspítala.
Nefndin fjalli um fjármögnunarleiðir, áfangaskiptingu og önnur álitamál sem tengjast framkvæmd málsins. Þá efli nefndin umræðu um málið með það að markmiði að skapa sátt um framkvæmdina.
Á síðasta þingi var samþykkt þingsályktunartillaga um byggingu nýs Landspítala. Ríkistjórninni var falið að ljúka undirbúningi að endurnýjun og uppbyggingu Landspítala við Hringbraut í Reykjavík og hefja framkvæmdir þegar fjármögnun hefur verið tryggð.
Hér má sjá kynningarmyndband um nýjan Landspítala:
Tillagan er lögð fram sama dag og RÚV flytur frétt af þriggja hæða samstæðu úr gámum sem verður sett upp á lóð Landspítalans í vetur og notuð sem skrifstofuhúsnæði fyrir lækna. Framkvæmdastjóri hjá spítalanum segir þetta vera neyðarráðstöfun.
Settir verða upp 18 gámar til bráðabirgða, baka til á lóð Landspítalans við Hringbraut. Þeim verður staflað upp í þriggja hæða samstæðu og verða innréttaðir sem skrifstofur fyrir sérfræðilækna, alls um 500 fermetar.