Það kom upp heldur óvenjulegt mál í miðborg Reykjavíkur í nótt en lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fékk tilkynningu um veitingastað sem stóð opinn þrátt fyrir að enginn starfsmaður væri á svæðinu.
Laganna verðir mættu á veitingastaðinn og komust að því að sá sem tilkynnti um þetta óvenjulega atvik var að segja satt – enginn starfsmaður var sjáanlegur. Gengu þeir um staðinn til þess að vera 100% vissir um að svo væri og læstu honum svo. Gera má ráð fyrir því að einhver fái skammir í hattinn fyrir að gleyma að loka honum.
Annars var vakt embættisins fremur róleg miðað við aðra daga en samtals voru 91 mál bókuð í LÖKE-kerfi lögreglunnar á vaktinni sem náði frá 17:00 í gær og þar til 05:00 í morgun.
Grunsamlegar mannaferðir og hótanir í garð lögreglu
Tilkynnt var um grunsamlega mannaferðir í hverfi 220 en það fylgdi þó ekki sögunni hvort lögreglan hafi fundið umrædda menn. Þá var einn ökumaður stöðvaður í hverf 201 en sá reyndist sviptur ökuréttindum og var um að ræða ítrekuð brot af hálfu þess einstaklings.
Einn var handtekinn í hverfi 200 vegna hótana í garð lögreglu og var sá aðili handtekinn og vistaður í fangaklefa í þágu rannsóknar málsins.
Tveir aðilar voru handteknir í hverfi 110 vegna sölu og dreifingu fíkniefna og þá var ökumaður undir áhrifum stöðvaður í sama hverfi en sá var einnig án ökuréttinda.