Í nýja áfengisfrumvarpinu sem lagt var fram á Alþingi í dag er lagt til að heimilt verði að auglýsa áfengi að vissu marki. Samkvæmt núgildandi áfengislögum eru hvers konar auglýsingar á fengi og einstökum áfengistegundum bannaðar.
Sjá einnig: Það sem við vitum um nýja áfengisfrumvarpið: Lengri afgreiðslutími og skert aðgengi
Núgildandi áfengislög:
20. gr. Hvers konar auglýsingar á áfengi og einstökum áfengistegundum eru bannaðar. Enn fremur er bannað að sýna neyslu eða hvers konar aðra meðferð áfengis í auglýsingum eða upplýsingum um annars konar vöru eða þjónustu.
Frumvarp um breytingu á áfengislögum sem lagt hefur verið fram á Alþingi:
20. gr. laganna orðast svo:
Heimilt er að auglýsa áfengi með þeim takmörkunum sem fram koma í lögunum.
Í frumvarpinu að nýju lögunum segir að auglýsingabannið feli í sér mismunun þar sem erlendir framleiðendur áfengis hafi greiðan aðgang að auglýsingum sem birtast hér á landi, hvort sem um er að ræða auglýsingar á erlendum kappleikjum, á internetinu eða í öðrum hljóð-, prent og myndmiðlum.
Þá segir einnig að auglýsingabannið sé í beinni andstöðu við niðurstöðu starfshóps á vegum fjármálaráðherra um heildarendurskoðun áfengislöggjafarinnar sem birt var í janúar 2010.
Í frumvarpinu er tekið fram að í öllum auglýsingum á áfengi skuli koma fram viðvörun um skaðsemi þess og hvatning um ábyrga neyslu.Þá er þeim sem auglýsa eða kynna áfengi í prentmiðlum, ljósvakamiðlum, netmiðlum eða með öðrum hætti skylt að setja sér sérstakar siðarelgur um auglýsingar og kynningar.