Lamar Odom, fyrrverandi körfuboltamaður og eiginmaður Khloe Kardashian er farinn í meðferð. Ár er síðan Lamar fannst nær dauða en lífi í vændishúsi í Nevada eftir að hafa dvalið þar og notað eiturlyf í nokkra daga.
Fréttavefurinn TMZ hefur eftir heimildarmanni sínum að Lamar hafi ákveðið sjálfur að fara í meðferð og að ástæðan sé ekki sú að hann sé fallinn, heldur eigi meðferðin að hjálpa honum að vinna í andlegri og líkamlegri heilsu sinni.
Óvíst er hversu lengi meðferðin, sem fer fram í San Diego í Kaliforníu, stendur yfir en hann hefur dvalið þar síðustu daga.
Það var í október á síðasta ári sem Lamar var fluttur á sjúkrahús í skyndi. Haft var eftir Dennis Hof, eiganda vændishússins þar sem Lamar dvaldi, að hann hafi verið froðufellandi og ælt blóði áður en sjúkraliðar mættu á staðinn. Ástand hans var á tímabili tvísýnt.
Lamar hefur barist við eiturlyfjafíkn sem batt enda á glæsilegan körfuboltaferil hans. Hann vann meðal annars meistaratitil með Los Angeles árin 2009 og 2010.