Eldgosið við Sundhnúksgígaröðina heldur áfram og er nú einn gígur virkur. Hraunrennsli úr gígnum flæddi í suðurátt í gærdag í fremur afmörkuðum straumi, sem varð að tilkomumikilli hrauná. Jafnframt hækkaði yfirborð kviku í gígnum smám saman þar til hann nánast fylltist.
Nyrðri gígbarmurinn brast um kl. 21:30 í gærkvöldi svo kvika fór að streyma í norður átt. Í dag 8. apríl má sjá að hraunflæðið er að megninu til aftur farið að renna til suðurs en sú framrás kviku sem við sáum í gærkvöldi og nótt til norðurs, virðist hafa bunkast þar upp á hæðina. Gígbarmurinn heldur áfram að hlaðast upp.
Hraunrennsli er greinanlegt á óróamælingum 1 til 2 Hz. (græntíðni á grafi) þegar hraunstraumurinn frá gígnum er hvað mestur, eykst óróinn samhliða. Eftir að gígbarmurinn gaf sig þá má sjá að óróinn fellur niður aftur. Sambærileg óróavirkni sást einnig í eldgosum í Geldingadölum þar sem órói jókst þegar að hraunstraumurinn jókst.
Landris hefur aukist nokkuð í Svartsengi, en út frá GPS mælingum og gervitunglamyndum hefur land risið um 2-3 cm frá 2.-7. apríl, sem er þó minna landris en mældist eftir fyrri gos síðustu mánuði. Aukið landris gæti verið merki um að kvikuflæði hafi aukist inn í Svartsengi eða að tregða sé komin í flæði kviku úr eldgosinu.
Lítil gasmengun hefur mælst á gasmælum Umhverfisstofnunar UST og Veðurstofunnar um helgina en áfram geta mælst tímabundið há gildi brennisteinsdíóxíðs í kringum eldgosið og í byggð á Reykjanesskaga. Bendum fólki á svæðinu að fylgjast með loftgæðum á síðu Umhverfisstofnunar.
Veðurspáin í dag er norðaustlæg átt og gasmengunin berst því til suðvesturs, þ.á.m. yfir Grindavík. Austlæg átt á morgun og þá má búast við gasmengun vestur af gosstöðvunum. Nýjustu gasdreifingarspá má finna hér.