Landris heldur áfram undir Svartsengi og virðist ekkert lát þar á. Kvikusöfnun er nokkuð stöðug, líkt og hún hefur verið undanfarna daga og vikur. Talið er að á bilinu 13 til 19 milljón rúmmetrar af kviku þurfi nú að bætast undir Svartsengi frá síðasta gosi til að byggja upp nægan þrýsing til að koma af stað nýju kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi.
Frá þessu greinir Veðurstofa Íslands en þar kemur fram samkvæmt líkanreikningum er líklegast að magnið sem bæst hefur við frá síðasta eldgosi nálgist 16 milljónir rúmmetra á næstu dögum. Ákveðin óvissa er í þessum útreikningum en gera má ráð fyrir nýju kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi á næstu tveimur til þremur vikum.
Von á þúsundum gesta
Skjálftavirknin síðustu daga hefur verið mjög lítil. Tíu skjálftar hafa greinst í grennd við kvikuganginn í Sundhnjúksgígaröðinni síðastliðinn sólarhring og um 90 síðastliðna viku. Flestir þeirra eru undir einum að stærð og eru á svipuðum slóðum og í fyrri atburðum. Til samanburðar mældust rúmlega 50 skjálftar daglega í aðdraganda síðasta goss. Skjálftavirknin fer hægt vaxandi dag frá degi ef horft er til síðustu vikna sem er í takti við þróun kvikusöfnunar undir Svartsengi.
Samkvæmt upplýsingum frá Bláa lóninu þá er opið þar í dag þrátt fyrir hættuástand en búist er við þúsundum gesta í dag og næstu daga.