Auglýsing

Landris í Öskju heldur áfram: Gaus síðast árið 1961

Landris í Öskju heldur áfram líkt og undanfarin ár en síðast gaus þarna árið 1961. Samkvæmt tilkynningu frá Veðurstofu Íslands hefur um það bil 12 cm landris mælst vestan við Öskjuvatn síðustu tólf mánuði. Talið er að kvika flæði á um þriggja kílómetra dýpi en þó er tekið fram að engin merki séu um að kvikuhreyfingar séu að færast nær yfirborði.

Ef gosupptök verða ofan í Öskjuvatni má þó búast við sprengigosi á meðan kvikan er að einangra sig frá vatninu.

Þetta voru niðurstöður árlegrar vettvangsferðar vísindamanna en hún var farin í ágúst síðastliðnum. Ferðin er samstarfsverkefni Veðurstofu Íslands, Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands og Háskólans í Gautaborg. Vettvangsferðin fól í sér landmælingar (nívó- og GNSS-mælingar), pH- og hitamælingar í Víti, auk margþættra gasmælinga (CO2, H2S og SO2) á gufuhverasvæðinu í Vítisgíg.

„Niðurstöðurnar styðja það sem sést á samfelldum GPS-mælum og á nýlegum InSAR-myndum, að landris heldur áfram í Öskju, en á hægari hraða síðan í september 2023. Hins vegar eru engin merki um að kvika sé að færast grynnra í jarðskorpuna,“ segir í tilkynningunni.

Þá kemur einnig fram að samkvæmt líkanreikningum hafi 4,4 milljónir rúmmetra bæst við síðustu tólf mánuði: „Því er áætlað að heildarrúmmálsbreyting síðan landris hófst í júlí 2021 sé nú um 44 milljónir rúmmetra.“

Fyrirboðar skýrir þegar síðast gaus

Eins og áður kom fram gaus síðast í Öskju árið 1961 þegar Vikrahraun myndaðist í basísku hraungosi en slík eldgos eru algengustu gos eldstöðvarinnar. Svipuð gos áttu sér stað í byrjun 20. aldar. Aðdragandi eldgossins árið 1961 var greinilegur en 20 dögum fyrir upphaf þess mældist aukin skjálftavirkni og veruleg aukning varð í jarðhitavirkni. Á tímabilinu 6.-12. október 1961 mældust sex skjálftar um 3 að stærð, þar af einn um 4 að stærð og kraftmiklir jarðhitahverir mynduðust á svæðum þar sem engin virkni hafði verið áður.

Um fjögur súr sprengigos eru þekkt á nútíma (síðustu 11 þúsund ár), það yngsta átti sér stað árið 1875. Aðdragandi þess goss hófst að minnsta kosti í febrúar 1874 með aukinni jarðhitavirkni, og sterkir og tíðir jarðskjálftar (skráðir á Norðurlandi) hófust vikum fyrir gosið. Árið 1875 gaus líka basískum hraungosum á sprungusveimi Öskju, Sveinagjárgosin, þar sem m.a. Nýjahraun myndaðist. Í ljósi sögunnar þar sem langt líður milli súrra sprengigosa í Öskju er ekki talið líklegt að atburðarás svipuð þeirri sem átti sér stað í lok 19. aldar hefjist á næstu misserum. Öllu líklegra er að afleiðingar áframhaldandi virkni verði eldgos sambærileg þeim sem hafa orðið á 20. öld, þ.e. tiltölulega lítil hraungos með minni háttar gjóskufalli.

Ef gosupptök verða ofan í Öskjuvatni má þó búast við sprengigosi á meðan kvikan er að einangra sig frá vatninu.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing