Landsbankinn hefur birt upplýsingar vegna sölu bankans á hlut sínum í Borgun á vefsíðu sinni. Þá hyggst bankin að eigin frumkvæði afhenda Alþingi samantekt um málið.
Örskýring: Mál Borgunar og Landsbankans útskýrt í stuttu máli, græðir milljarða korteri eftir sölu
Í tilkynningu frá bankanum kemur fram að engar upplýsingar hafi legið fyrir um greiðslur til Borgunar vegna Visa Europe.
Á vef Landsbankans kemur fram að bankinn hafði ekki upplýsingar um að valréttur vegna hugsanlegrar yfirtöku Visa Inc. á Visa Europe myndi leiða til greiðslna til Borgunar.
„Þetta hafði heldur ekki komið fram í tengslum við önnur viðskipti með hluti í Borgun á árunum 2009-2014. Landsbankinn var í viðræðum um sölu á eignarhlutum sínum í Valitor og Borgun á svipuðu tímabili á árinu 2014, þótt viðskiptunum með hluti í Borgun hafi lokið fyrr,“ segir í tilkynningunni.
„Í viðræðum Landsbankans við meirihlutaeiganda Valitor, Arion banka, lágu fyrir upplýsingar um réttindi Valitor í tengslum við valréttinn, þótt útilokað hafi verið að leggja áreiðanlegt mat á verðmætin á þeim tímapunkti.“
Í tilkynningunni kemur fram að Borgun geri upp samkvæmt alþjóðlegum reikningsskilastöðlum (IFRS) og ber því að færa slík réttindi á gangvirði á hverjum tíma.
„Það að Borgun hafi ekki metið slík réttindi til eignar og/eða gert grein fyrir þeim í sínum ársreikningum eða í upplýsingagjöf til Landsbankans, bendir til þess að Borgun hafi á þeim tíma ekki átt tilkall til réttindanna, þau hafi ekki verið til staðar eða þau væru það óljós að ekki væri hægt að reikna þau til verðmætis,“ segir í tilkynningunni.
Þá kemur fram að í viðræðum við stjórnendur Borgunar hafi heldur ekki komið fram neinar upplýsingar um að Borgun hefði rétt á hlutdeild í verðmætum valréttarins, hvað þá að vegna hans hefðu skapast verðmæt i hjá Borgun.
„Landsbankinn hefur enga ástæðu til að ætla að stjórnendur Borgunar hafi verið meðvitaðir um tilvist slíkra réttinda,“ segir í tilkynningunni.
Loks kemur fram að Landsbankanum hafi verið kunnugt um að Borgun hugðist auka verulega færsluhirðingu fyrir seljendur í erlendum netviðskiptum.
„Að mati bankans fylgdi þeirri starfsemi veruleg áhætta og líkur voru taldar á að hún gæti leitt til tjóns hjá félaginu og skaðað orðspor Landsbankans,“ segir í tilkynningunni.
„Samkvæmt upplýsingum Landsbankans margfölduðust erlend Visa-umsvif Borgunar á árinu 2015 miðað við það sem áður var. Langstærstur hluti fjárhæðarinnar sem Borgun á von á mun vera vegna viðskipta sem urðu eftir að Landsbankinn seldi hlut sinn í félaginu.“