Björgunarsveitafólk Landsbjargar er í þann mun að hefja skipulagða leit að Birnu Brjánsdóttur.
Leitað verður í miðbæ Reykjavíkur.
Uppfært kl. 11.32.
Þær upplýsingar fengust frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu að einnig verið væri að skipuleggja og hefja leit í Hafnarfirði og komu þær fram þegar þessi frétt var birt. Samkvæmt upplýsingum frá Landsbjörgu er það ekki rétt, til að byrja með verður leitað í miðbæ Reykjavíkur. Hefur þetta verið leiðrétt í fréttinni.
Samkvæmt nýjustu upplýsingum frá lögreglu sést Birna í eftirlitsmyndavélum ganga ein síns liðs austur Austurstræti, Bankastræti og Laugaveg að húsi númer 31 þar sem hún hverfur sjónum um klukkan 5.25 aðfaranótt laugardags.
Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu vinnur nú úr miklu magni ábendinga sem borist hafa alla helgina og í dag.
Ekki er búið að hafa uppi á ökumanni rauðrar Kia Rio fólksbifreiðar sem lögregla hefur óskað eftir að ná tali af.
Lögregla vinnur einnig að því að finna öryggismyndavélar sem snúa út á gangstétt og götu á leiðinni þar sem Birna sást ganga eftir Austurstræti, Bankastræti og Laugavegi aðfaranótt laugardagsins. Myndefni úr þeim gætu varpað betra ljósi á málið, eða veitt upplýsingar.
Ekki er búið að útiloka að hún hafi ferðast með leigubíl eftir að síðast sást til hennar í öryggismyndavélum á Laugavegi.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu liggja engar vísendingar fyrir um að hvarf Birnu hafi komið til með saknæmum hætti. Lögregla hefur þó áhyggjur af því hversu langur tími er liðinn frá því að síðast sást til hennar og leggur allt í sölurnar til að finna hana sem fyrst.
Lögreglan biður alla þá sem veitt geta upplýsingar um ferðir Birnu og hvar hún er niðurkomin að hafa samband við lögreglu í síma 444 1109.