Rúnar Alex Rúnarsson, landsliðsmarkvörður í fótbolta, spilar nú í frönsku úrvalsdeildinni með liðinu Dijon. Rúnar kom þangað frá Nordsjælland í Danmörku þar sem hann var vinsæll. Hin níu ára gamla Olivia átti erfitt með að sætta sig við það þegar Rúnar yfirgaf Nordsjælland, hennar uppáhalds lið.
Rúnar er uppáhalds leikmaður Oliviu sem spilar sjálf sem markvörður í fótbolta. Hún brast í grát þegar fréttir bárust að því að Rúnar hefði verið seldur frá Nordsjælland.
Olivia gat tekið gleði sína á ný þegar hún fékk fréttir af því að hún væri að fara á leik með nýju liði Rúnars í Frakklandi. Í samstarfi við DHL, styrktaraðila Nordsjælland, var ákveðið að fljúga Oliviu og föður hennar til Frakklands til þess að fylgjast með Rúnari.
Eftir leikinn heilsaði Rúnar svo upp á Oliviu og gaf henni treyjuna sína. Hann spjallaði við hana og útskýrði fyrir henni hvers vegna hann skipti um lið.