Auglýsing

Landsliðsskautari: „Við erum grjótharðar á skautunum“

Vinsældir hjólaskautaats, eða „Roller Derby“ eins og íþróttin kallast á ensku, hefur færst í aukana hér á landi á undanförnum árum. Íþróttin þykir mörgum flókin en hún er leikin á hjólaskautum þar sem leikmenn skauta í hringi og reyna að safna stigum og hindra andstæðinga sína í því sama. Á Íslandi hefur eitt hjólaskautaatslið verið starfandi frá árinu 2011. Íþróttin hefur hinsvegar verið leikin frá árinu 1920 og hefur alltaf vakið athygli fyrir að vera mikil kvennaíþrótt en stelpurnar í íslenska liðinu Ragnarök segja það hafa verið erfitt að sannfæra Íslendinga um raunverulegt gildi íþróttarinnar.

„Það hefur verið mikil framför á síðustu árum hvernig íþróttinni er tekið hér á landi” segir Alexandra Dögg Steinþórsdóttir, meðlimur Ragnaraka. „Fyrst um sinn var okkur hvergi hleypt inn til að æfa að skauta því íþróttasalirnir voru vissir um að skautarnir myndu skemma gólfið, jafnvel þótt við segðum þeim að svo væri alls ekki. Fólk var mjög gjarnt á að dæma okkur og fyrst að þetta væri kvennasport þá hlytum við bara að vera að skauta í krúttlega hringi og leika okkur. Það hefur tekið mikið á að sannfæra Íslendinga um að þetta sé alvöru íþrótt.“

Ljósmynd/ Tom Malko

Alexandra, eða Lexía de Trix eins og liðsfélagar hennar þekkja hana, segir það hafa reynst liðinu erfitt að finna fastan stað til þess að æfa á og þær hafi meðal annars þurft að æfa í ísköldum bílakjöllurum og oft hafi þeim verið úthýst af íþróttahúsum. Það hafi kostað stelpurnar bókstaflegt blóð, svita og tár að fá að halda íþróttinni gangandi og þær fagna öllum litlum sigrum.

“Það var til dæmis stór sigur fyrir okkur þegar fréttirnar um hjólaskautaatið færðust úr almennum lífstílsfréttum yfir í íþróttafréttir. Það getur verið mjög erfitt að þurfa endalaust að sannfæra fólk um gildi íþróttarinnar og að við séum landsliðskonur að keppa á heimsmeistaramótum, rétt eins og fótboltafólk eða fimleikafólk” segir Alexandra og bætir við að þessi skortur á virðingu og umfjöllun um hjólaskautaat sé partur af enn stærra, samfélagslegu vandamáli þar sem litið er niður á „kvennaíþróttir” og áhugamál kvenna.

„Áskorun fyrir okkur er að halda áfram að kynna íþróttina fyrir íslensku samfélagi og finna hvar menning hjólaskautaats og íslensk íþróttamenning getur mæst svo kannski einn daginn fari íslendingar að kalla Ragnarök “stelpurnar okkar.” Hjólaskautaat er krefjandi íþrótt, ekki eitthvað lífstíls trend” bætir hún við.

Ljósmynd/ Selkot Photography

Saga íslenska liðsins einkennist af grasrótarstarfsemi, elju og metnaði þeirra kvenna sem stunda íþróttina. Sökum þess hve erfiðlega liðinu hefur gengið að fá fast heimili og fasta æfingartíma hefur það reynst erfitt að halda í efnilega liðsmenn. Ragnarök gengu í ÍSÍ í vonum að fá aðstoð Íþróttasambandsins og aðgang að betri íþróttahúsum, æfingartímum og fjölmiðlaumfjöllun. Alexandra segir samstarfið frekar nýtt og því eigi enn eftir að fullreyna hvort Íþróttasambandið nýtist stelpunum vel en draumur þeirra er að eiga fastan æfingarsal, sinn eigin völl og styrktaraðila eins og gengur og gerist í öðrum íþróttum.

„Hjólaskautaat byrjaði sem kvennaíþrótt en í dag er hún orðin íþrótt fyrir öll kyn” segir Alexandra. Hún segir það einnig á dagskrá félagsins að stofna sérstakt karlalið og ungliðahreyfingu en eins og staðan er í dag þurfa keppendur að hafa náð 18 ára aldri til þess að keppa í hjólaskautaati.

Ljósmynd/ Selkot Photography

Samfélag hjólaskautatsins hefur vakið athygli víða um heim fyrir að vera fremst í flokki hvað varðar fordómaleysi og samheldni sem e.t.v. finnst ekki í öðrum íþróttagreinum. Í hjólaskautaati er ekki spurt að kynvitund, kynhneigð, þjóðerni eða líkamsgerð því það hefur engin áhrif á þátttöku keppenda í íþróttinni og er engin ein sérstök líkamsgerð sem er ráðandi innan hjólaskautaatsins. Íslenska liðið er virkur þátttakandi í starfsemi hinsegin fólks á Íslandi og hafa Ragnarök skautað í Gleðigöngu Samtakanna ’78 síðust ár.

Instagram /rollerderbyiceland

„Fólk sem upplifir sig hvorki sem karl né konu, eða bæði eða hvað sem er fá bara að spila með því liði sem því líður best með. Hjólaskautaatið á að vera öruggur staður fyrir alla og engar kröfur eru gerðar aðrar en áhugi og metnaður. Við mismunum fólki ekki og vinnum með styrkleika fólks, frekar en veikleika” segir Alexandra.

Þessi fjölbreytileiki smitast einnig út í búninga liðanna en gæti fólki þótt framandi að sjá liðsmenn skauta í netasokkabuxum, með allskonar andlitsmálningu eða skraut á búningum sínum, sem ekki er leyfilegt í öðrum íþróttum. Alexandra segir að öll þessi listsköpun og höfnun á karllægu sjónarhorni sé sprottin upp úr því að hjólaskautaatið er fyrst og fremst feminísk íþrótt. Hún segir liðsmenn ekki klæða sig upp til þess að vera kynþokkafullar og þóknast áhorfendum, heldur fara leikmenn í búninga, búa sér til sviðsnöfn og skapa sér hliðarsjálf sem allt er partur af iðkun íþróttarinnar.

Skrautlegar skautakonur á Öskudegi

„Hjólaskautaatið hafnaði öllu því sem þykir hefðbundin, karllægur íþróttaheimur. Það er litið niður á kvennaíþróttir og karlaliðin fá meiri athygli, meiri peninga og meiri viðurkenningu og oft er það algörlega óháð frammistöðu” segir Alexandra. „Við erum ekki hér til þess að skauta þokkafullar yfir leikvanginn eins og sýningargripir. Við erum alvöru íþróttamenn í grjóthörðu sporti sem þarfnast mikillar líkamlegrar getu og þols.”

Íslenska liðið hefur spilað á fjölda erlendra móta og segir Alexandra að mikill áhugi sé á íslenska liðinu í heimssamfélagi hjólaskautaatsins. Hún segir marga vera upprifna af því hversu miklu þær eru búnar að áorka á jafn stuttum tíma og á jafn litlu landi og raun ber vitni. Íslenska liðið keppir oftar og á stærra lið en mörg fylkjalið Bandaríkjanna og annarra Evrópulanda sem hafa úr stærri íbúafjölda að moða. Ragnarrök kepptu sína fyrstu landsleiki í Finnlandi árið 2014 og síðustu fimm ár hefur liðið ferðast víða og keppt með góðum árangri. Á síðast ári kepptu þær á heimsmeistaramóti hjólaskautaats í Bretlandi þar sem þær sigruðu lið Kosta Ríka, náðu sæti ofarlega í riðlinum og unnu glæstari sigra en mörg önnur stærri lönd.

Ragnarök keppa einnig reglulega við önnur lið hér heima og erlendis. Næsti leikur liðsins verður laugardaginn 27.apríl en þá tekur íslenska liðið á móti Team Unicorn frá Englandi. Leikurinn verður haldin í húsakynnum Gróttu í Hertz höllinni og eru allir velkomnir. Húsið opnar kl.14:30 og flautað verður til leiks kl. 15:00. Hægt er að kaupa sér miða hér á Tix.is.

Alexandra segir framtíðina bjarta í heimi íslenska hjólaskautaatsins og vonast hún og liðsfélagar hennar til að Íslendingar fari að sýna íþróttinni meiri áhuga.

“Það eru allir alltaf velkomnir! Þú getur verið hluti af samfélaginu án þess að nokkurntímann snerta hjólaskauta. Okkur vantar alltaf dómara, stigaverði og aðstoðarfólk. Ef fólk hefur áhuga á að koma og skauta en er hrætt við það erum við alltaf tilbúnar að kenna fólki og bjóðum alla velkomna” bætir Alexandra við brosandi og segist hlakka til að sjá þjóðina fjölmenna á leiki liðsins á laugardaginn.

Hægt er að kynna sér starfsemi Ragnaraka á heimasíðu þeirra hér eða Facebook/RollerDerbyIceland.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing