Auglýsing

Landspítalinn hafnar því að hafa gefið auglýsingastofunni Kleppi leyfi: „Hér á ferð eru klisjur og fordómar“

Landspítalinn veitti auglýsingastofunni Kleppi ekki heimild til að nota orðið Kleppur, enda hefur spítalinn ekki einkarétt á nafninu og getur því ekki veitt slíkt leyfi. Spítalinn er alfarið á móti því að stofan noti nafnið eins og hún gerir í dag. Þetta kemur fram í athugasemd Landspítala vegna fréttar Nútímans um auglýsingastofuna sem birt var fyrr í dag.

Sjá einnig: Landspítalinn tók auglýsingastofunni Kleppi fagnandi: „Við erum ekki að gera grín að þessu“

Í fréttinni var fjallað um auglýsingastofuna Klepp í kjölfar þess að margir gagnrýndu nafn auglýsingastofunnar og framsetningu á vef hennar á samfélagsmiðlum síðastliðinn sólarhring. Í lýsingu á vef stofunnar segir að Kleppur sé meðferðarheimili fyrir fyrirtæki sem þurfa markaðstengda aðstoð.

Landspítali er með margvíslega þjónustu að Kleppi. Meðal annars endurhæfingargeðdeildir, iðjuþjálfun, meðgönguteymi og batamiðstöð. Þar er einnig réttargeðdeild. Að sögn Landspítala sinna allar deildirnar því hlutverki að meðhöndla sjúklinga með geðræn vandamál og endurhæfa aftur út í samfélagið. Meðallegutími er 3-6 mánuður og meðalaldur er um 24 ár.

Í athugasemd Landspítalans segir að spítalinn sé alfarið á móti notkun nafnsins Kleppur eins og um ræðir í tilfelli auglýsingastofunnar, einkum hvernig fyrirtækið nýtir sér nafnið með myndefni og texta.

Hér á ferð eru klisjur og fordómar, sem ýta undir neikvæð hugrenningatengsl gagnvart geðrænum sjúkdómum og fjölbreyttri starfsemi Landspítala við Klepp.

Magnús Bergsson, annar eigandi stofunnar, sagði í samtali við Nútímann fyrr í dag að eigendur stofunnar hefðu haft samband við Landspítalann áður en því var slegið föstu að hún myndi fá nafnið Kleppur. Magnús sagði jafnframt að Landspítalinn hefði gefið þeim félögum leyfi, tekið nafninu fagnandi og gjarnan viljað fá jákvæðari tengingu við orðið Kleppur. Þá sagði hann einnig að eigendur stofunnar hefðu ekki viljað nefna stofuna Kleppur í óþökk Landspítalans.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing