Auglýsing

Lars telur að Noregur geti komist á HM 2018 undir hans stjórn: „Erfitt, en ekki ómögulegt“

Lars Lagerbäck telur að norska karlalandsliðið í fótbolta geti komist á heimsmeistaramót undir hans stjórn. Í dag var greint frá því að hann hefði tekið við stjórn liðsins næstu þrjú árin.

Þetta kemur fram í viðtali NRK við Lars.

Norska fótboltasambandið hefur leitað að landsliðsþjálfara síðustu mánuði eftir að síðasti þjálfari hætti störfum 16. nóvember.

„Það er mjög spennandi að fá að vinna með norska landsliðinu. Ég hef fylgst grannt með norskum íþóttum. Ég vil einnig þakka sænska fótboltasambandinu. Ég var með samning við þá en gat slitið honum án vandræða,“ sagði Lars.

Hann segist áður hafa sagst vera óviss um hvort hann vildi vera í fullu starfi. Honum hafi þótt norska landsliðið mjög áhugavert og því hafi hann tekið starfinu. Samningurinn við Lars hefur verið í burðarliðunum síðustu vikur. Hann mun ekki koma til með að búa í Noregi.

Norska karlalandsliðið er í fimmta sæti af sex í riðli c í undankeppninni fyrir HM í fótbolta í Rússlandi 2018. Liðið hefur unnið einn leik en tapað þremur. Lars viðurkennir að staða liðsins í undankeppninni sé erfið. „Þetta verður erfitt, en ekki ómögulegt. Það verður erfitt að vinna riðilinn en það er möguleiki á öðru sæti,“ segir Lars.

Hann telur að ef Ísland geti komist í umspil, þá geti Noregur það líka. „Í fótbolta getur maður unnið alla leiki. Þetta snýst um að vinna og gera eins fá mistök og maður getur,“ segir Lars.

Lars sagðist einnig ætla að ráða norskan aðstoðarþjálfara sem þekki norska fótboltamenn.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing