Laufey Kristinsdóttir hefur talað opinskátt um andleg veikindi sín á Twitter og sagði meðal annars frá því þegar hún lagðist inn á geðdeild um daginn. Hún er rúmlega tvítug og glímir við ofsakvíða, þunglyndi, félagsfælni, áfallastreituröskun og vott af áráttu- og þráhyggjuröskun.
Nútíminn vill taka fram að í þessu viðtali er fjallað um sjálfsskaða og tilraun til sjálfsvígs.
Laufey segist í samtali við Nútímann alltaf hafa verið opin með að tala um andleg veikindi á Twitter. Hún hafi alltaf hvatt fólk til þess en sjálf gerði hún það ekki fyrr en í júlí 2015 þegar hún ýjaði fyrst að því að hún væri með kvíða og félagsfælni.
„Það var ekki fyrr en #égerekkitabú byltingin fór af stað í október 2015 sem ég talaði opinskátt um kvíðann minn. Þá fyrst fékk ég kjark til þess að ræða þetta á svona opinberum vettvangi. Fyrst var ég mjög hikandi, en áttaði mig svo á að til þess er einmitt byltingin. Svo ég ákvað að taka þátt og sé alls ekki eftir því. Ég varð alltaf opnari og ófeimnari við að tala um allskonar viðkvæm málefni á Twitter með tímanum,“ segir Laufey í samtali við Nútímann.
Laufey segir að kvíðinn hafi alltaf fylgt henni, allt frá því að hún var barn. Hún gerði aftur á móti ekkert í því fyrr en námsráðgjafi hennar í framhaldsskóla sendi hana til sálfræðings haustið 2013.
„Ég fékk styrk frá Hafnarfjarðarbæ til þess að borga kostnaðinn en sá styrkur dugði aðeins fyrir sex skipti. Eftir það fór ég ekkert aftur sökum peningaleysis. Kvíðinn magnaðist með árunum og náði hámarki í byrjun febrúar á þessu ári,“ segir Laufey.
Hún lenti í bílslysi í júlí árið 2016 og missti úr vinnu í þrjár vikur vegna meiðsla.
„Það mætti segja að slysið hefði verið fyrsti triggerinn af þunglyndinu sem ég átti síðar eftir að berjast við, en þá fór ég fyrst að finna fyrir einkennum þess. Það var ekki fyrr en ég bognaði undan álagi í byrjun desember 2016 sem ég var sett á kvíða- og þunglyndislyf. Það tók mig mjög langan tíma að safna kjarki til þess að biðja heimilislækninn um þessi lyf,“ segir Laufey.
Ástæðan fyrir því að hún ákvað að prófa lyfin var sú að hana vantaði aðstoð og sá ekki fram á að geta greitt fyrir viðtalsmeðferð hjá sálfræðingi.
„Sá skammtur var hinsvegar ekki nóg og aukaverkanirnar gerðu það að verkum að kvíðinn og þunglyndið stigmögnuðust. Ég upplifði svefnleysi, aukinn kvíða og þunglyndiseinkenni, einangraði mig og missti félagslega og samskiptalega færni,“ útskýrir Laufey.
Þegar hún byrjaði að taka lyfin í lok síðasta árs ákvað hún að hætta að drekka áfengi.
„Ég hef aldrei höndlað áfengi vel og byrjaði að misnota það síðasta sumar sem „lækningu“ í kjölfar áfalla sem ég varð fyrir. Eftir hvert djamm fylgdu dagar af miklum kvíða og þunglyndi, þar til næsta helgi kom. Svoleiðis gekk það endurtekið í langan tíma þar til ég ákvað að segja skilið við áfengi,“ segir Laufey.
Yfirleitt finnst mér ekkert mál að vera edrú. Stundum er það erfitt.
Í kvöld er það mjög erfitt.
— Laufey Kristins? (@laufeykristins) February 4, 2017
Það hefur gengið hana misvel að halda sig frá áfenginu. Hún segist áður hafa farið edrú á skemmtistaði og fundist það ágætt en ekki jafn skemmtilegt og að vera ölvuð sjálf. Henni tókst að vera edrú næstum allan desembermánuð en féll á gamlárskvöld og síðan aftur 9. febrúar síðastliðinn.
Ég er búin að vera í stöðugu kvíðakasti í þrjá sólarhringi núna. Gaman gaman ??
— Laufey Kristins? (@laufeykristins) February 5, 2017
„Fimmtudaginn 9.febrúar upplifði ég stærsta kvíðakast sem ég hef nokkurntímann fengið. Þegar versta kastið var búið tók þunglyndið við og ég fékk sjálfsvígshugsanir í fyrsta sinn af alvöru. Ég leitaði tímabundinnar huggunar með sjálfsskaða, sem ég hafði aldrei áður gert. Þá bjuggu systir mín og kærasti um sárin og fylgdu mér upp á geðdeild með mínu samþykki,“ segir Laufey.
Þar biðu þau í þrjá klukkutíma áður en Laufey var kölluð inn í viðtal. Geðlæknirinn sem tók á móti henni taldi ekki þörf á að leggja hana inn, og sendi hana heim með lyf til að hjálpa henni að sofa ásamt ýmsum ráðleggingum.
„Kærasti minn fór þá með mig heim til okkar og fylgdist vel með mér þar til ég sofnaði. Daginn eftir fékk ég aðra niðursveiflu. Ég braut upp rakvél þegar kærasti minn sá ekki til og skaðaði mig með henni. Hann kom að mér og stöðvaði mig. Þá hringdi hann í systur mína sem sótti mig og fór með mig til mömmu þar sem þau töldu mig öruggari,“ segir Laufey.
Seinnipart laugardags upplifði Laufey þriðju niðursveifluna. Það sem ýtti undir niðursveifluna var þegar þriggja ára systurdóttir hennar sá umbúðirnar á úlnliðnum og spurði hvað hefði gerst.
Mjög sárt þegar þriggja ára systurdóttir sér umbúðirnar á úlnliðnum og spyr hvað gerðist
— Laufey Kristins? (@laufeykristins) February 11, 2017
„Ég læsti mig inn á baðherbergi og komst í rakvél sem hafði gleymst í einni skúffunni. Þá fyrst skaðaði ég mig „almennilega“. Systir mín, kærasti og mamma áttuðu sig á að ég var búin að vera of lengi og þegar ég svaraði ekki köllunum þeirra reyndu þau að aflæsa hurðinni utan frá. Þeim tókst það og stöðvuðu mig áður en þetta varð alvarlegra. Aftur var ég aðeins að leita af huggun með sjálfsskaða. Áætlunin var ekki að svipta mig lífi, ekki þá allavega,“ segir Laufey.
Á sunnudagskvöldið var það óvænt uppákoma sem setti strik í innlögn Laufeyjar á geðdeild.
„Uppákoman varð til þess að ég fékk verstu niðursveiflu hingað til og tók þá ákvörðunina að svipta mig lífi. Hinsvegar höfðu mamma og systir mín falið allt mögulegt sem mér hefði dottið í hug að nota. Þær voru báðar heima þegar þetta er að gerast svo ég reyndi að sýnast yfirveguð á meðan ég lúmskt leitaði um íbúðina. Laug að systur minni að ég var að reyna að ákveða hvað ég ætti að elda mér að borða, þess vegna væri ég að skoða í alla skápa og skúffur. Þegar ég fann skæri laumaði ég þeim í vasann og læsti mig aftur inn á bað. Ég reif upp gömlu sárin en skærin dugðu ekki til neins alvarlegra svo ég gafst upp,“ segir Laufey.
Hún fór út í garð og keðjureykti á meðan hún gekk fram og til baka að svipast um eftir eitthverju beittu. Hverju sem er.
„Þegar ég áttaði mig á að þetta myndi ekki ganga ákvað ég að ef ég gæti ekki skaðað mig þá gæti ég að minnsta kosti reynt að drekka mig í hel. Svo ég hafði samband við tvær vinkonur sem búa nálægt mömmu í leit af sterku víni. Þær, sem betur fer, áttu ekkert svo ég hringdi í vin minn og sagði honum hvað hafði komið upp á. Hann sótti mig, róaði mig og fór með mig til systur minnar sem aftur bjó um sárin og huggaði mig. Þá ákváðu mamma og systir mín að fara með mig á geðdeildina morguninn eftir með það í huga að fá innlögn fyrir mig. Ég átti tíma í eftirlitsviðtal þar á mánudagsmorgninum. Sú sem tók á móti mér í viðtalinu ákvað að innlögn væri það besta í stöðunni. Ég var sammála því,“ segir Laufey.
Í gærmorgun var ég lögð inn á geðdeild og verð hér eitthvað áfram. Loksins að vinna í sjálfri mér með aðstoð yndis fagaðila.#égerekkitabú
— Laufey Kristins? (@laufeykristins) February 14, 2017
Hún segir að dvöl hennar á geðdeildinni hafi verið mjög góð. Systir Laufeyjar tók símann hennar þannig að hún kúplaði sig algjörlega út í þrjá sólarhringa.
„Ég komst ekkert á samfélagsmiðla né í samband við vini mína, sem var akkúrat það sem ég þurfti. Engar truflanir. Ég var inn á geðdeild í þrjár nætur, eða fjóra heila daga. Ég varði dögunum mínum í að skrifa í dagbókina mína, lita, eða spjalla við starfsfólkið eða hitt vistfólkið,“ segir Laufey.
Hún fór í tíma í slökun á hverjum morgni og göngutúr eftir hádegi alla daga. Þá fengu sjúklingarnir líka fræðslukynningu frá klúbbnum Geysi sem Laufey segir að hafi verið áhugaverð. Hún ræddi við lækni og hjúkrunarfræðing á hverjum morgni þar sem farið var yfir stöðu hennar og hvernig henni gengi að jafna sig. Þá fékk Laufey einnig að ræða við áfengisráðgjafa og sálfræðing sem hjálpuðu henni mikið.
„Áfengisráðgjafinn kom mér inn í prógram sem beið mín eftir útskrift. Sálfræðingurinn fór í gegnum greiningarferli fyrir geðsjúkdóma. Hún hafði síðan samband við mig daginn eftir útskrift með niðurstöður. Hún tilkynnti mér það að ég væri greind með ofsakvíða, þunglyndi, félagsfælni, áfallastreituröskun og vott af áráttu- og þráhyggjuröskun. Að fá staðfestingu á þeim geðsjúkdómum sem ég hef verið að glíma við var mikill léttir. Þessar niðurstöður munu hjálpa mér að vinna úr vandanum á réttan hátt með aðstoð fagaðila,“ segir Laufey.
Ég var að útskrifast af geðdeildinni degi fyrr?
Er búin að ná góðum bata og fer héðan með gott prógram til að halda jafnvægi.Er jákvæð?
— Laufey Kristins? (@laufeykristins) February 16, 2017
Hún segir að eftir innlögnina á geðdeildina taki við langt bataferli. Hún mætir á fundi hjá Teig, meðferðarstöð á geðdeildinni, á hverjum degi og mun Laufey einnig byrja í sálfræðimeðferð hjá Kvíðameðferðarstöðinni fljótlega. Hún er líka í viðtölum hjá Stígamótum.
„Fyrsta skrefið í átt að bata frá þessum veikindum var að viðurkenna vandann, segja frá honum og gera mér grein fyrir því að andleg veikindi skilgreina mig ekki heldur séu vandamál sem ég vona að ég geti verið laus við,“ segir Laufey.
Ég sigraði einn stærsta óttann minn í kvöld – ræktin. Mér hefur aldrei liðið betur. Fékk meira að segja engan kvíða!
Stolt ?— Laufey Kristins? (@laufeykristins) February 17, 2017
Hún hefur fengið mikinn stuðning frá fylgjendum sínum á Twitter, sérstaklega í einkaskilaboðum. Laufey segir þennan stuðning vera ástæðuna fyrir því að hún þorði að opna sig meira.
„Mér þykir mjög vænt um öll skilaboð sem ég hef fengið. Þau hafa hjálpað ótrúlega mikið og ég hef fengið frábær ráð frá ýmsum aðilum. Jafnvel bara reynslusögur frá öðru fólki hjálpar töluvert. Er óendanlega þakklát fyrir alla sem hafa gefið sér tíma í að hughreysta mig eða senda mér línu og spjalla,“ segir Laufey að lokum.