Íslandsmótið í ísbaði fór fram í Grindavík í lok maí-mánaðar. Lea Marie Galgana stóð uppi sem sigurvegari en hún sat í ísbaðinu í fjörutíu og tvær mínútur og tuttugu sekúndur.
Þetta var í fyrsta skipti sem Lea tók þátt í mótinu en hún byrjaði að stunda ísböð í febrúar á þessu ári. Í samtali við Nútímann segir Lea að ísböðin hafi haft góð áhrif á heilsuna.
„Ég var komin á mjög slæman stað hvað heilsuna varðar. Ég var lögð inn á sjúkrahús með vefjagigt og var alveg farin í bakinu. Ég átti mjög erfitt með að ganga og gat ekki setið. Ég þoldi illa lyfin sem ég fékk þannig að ég ákvað að leita mér annarra leiða. Ég sá viðtal í Ísland í dag þar sem Andri Iceland sagði frá sinni reynslu af ísböðum og mig langaði að prófa.”
Lea segist hafa verið hrædd við að prófa fyrst vegna þess að hún hafi verið mikil kuldaskræfa en eftir fimm vikna kuldaþjálfunarnámskeið hjá Wim Hof á Íslandi hafi hún fundið ótrúleg áhrif.
„Strax í fyrstu viku námskeiðsins átti ég um tvær mínútur alveg verkjalausar. Það hafði ekki gerst í marga mánuði. Svo fór verkjalausu augnablikunum að fjölga. Í þriðju viku náði ég að losna við alla verki og vanlíðan og það var algjörlega Wim Hof öndunaræfingum og kælingu að þakka.”
Ég hætti að taka öll verkjalyf og gigtarlyf og er búin að vera verkjalaus síðan eingöngu með því að nota köld böð til verkjastillingar. Þetta hefur virkað miklu betur á mig en nokkurt annað lyf sem ég hef tekið í gegnum tíðina.
Lea segist ekki hafa búist við því að sigra Íslandsmótið og að hún hafi ekki verið að taka þátt í mótinu með sigur í huga.
„Vinkona mín sagði við mig að maður færi í fyrstu keppnina til þess að læra að keppa. Mig langaði í rauninni bara að prófa að setjast í ísbaðið og stefna svo að því að keppa fyrir alvöru á næsta ári.”
Algirdas Kazulis lenti í öðru sæti í keppninni en hann sat í 41 mínútu í ísbaðinu. Algirdas hafði lokið keppni þegar Lea byrjaði.
„Hann var alveg grjótharður og átti sigurinn svo sannarlega skilið. Ég var alveg búin að sætta mig við að nota þessa keppni bara sem undirbúning fyrir næsta ár. Ætli ég hafi ekki verið heppin að vita hvaða tíma ég þyrfti að ná, en hvernig ég komst þangað veit ég ekki alveg. . Ætli það sé ekki bara öllu því sem ég lærði á Wim Hof námskeiðinu hjá Primal Iceland að þakka. Án þeirra hefði ég auðvitað aldrei komist á þann stað sem ég er í dag og er þeim ævinlega þakklát.”
En hvernig er tilfinningin eftir rúmar 42 mínútur í ísbaði?
„Ég var bara í sæluvímu og leið mjög vel. Ég var aðeins stirð og ákvað að hita mig upp sjálf áður en ég fór í heita pottinn. Ég þrjóskaðist aðeins við að fara í pottinn því ég vissi að það yrði sjokk fyrir líkamann að fara í svona mikinn hita strax. Þetta var ekki þægilegt en var farið eftir örfáar mínútur.”