Apótek á Manhattan í New York í Bandaríkjunum hefur vakið mikið umtal á samfélagsmiðlum í vikunni eftir eigandi þess greindi frá því að 7% skattur yrði lagður á vörur karlkyns viðskiptavina.
Í gluggum apóteksins má sjá auglýsingar þar sem segir að karlmenn greiði svokallaðan karlmannaskatt en konur sleppi við skattinn.
Eigandi apóteksins ákvað að grípa til skattsins til að vekja athygli á því að konur greiði að meðaltali 7% meira en karlmenn fyrir sambærilegar vörur. Munurinn er jafnvel enn meiri ef litið er til fatnaðar fyrir fullorðana.
Eftir að auglýsingarnar voru hengdar upp var birt mynd af þeim á síðunni myndasíðunni Imgur og hefur hún verið skoðuð rúmlega 483 þúsund sinnum á tveimur dögum.
„Við viljum vekja athygli á því hvernig það er að vera kona, svo að menn fái í alvöru að finna fyrir því,“ sagði eigandinn, Jolie Alony, í samtali við Gothamist.
Eftir að málið komst í hámæli sá hún sig tilneydda til að útskýra á Facebook að í raun og veru væri ekki verið að láta karlmenn greiða 7% minna fyrir vöruna, heldur fengju konur samsvarandi afslátt þannig að kynin greiði sama verð fyrir sambærilegar vörur.
„Hingað til eru konur mjög, mjög ánægðar,“ sagði Alony einnig, „Menn hafa ekki kvartað enn, þeir hafa bara hlegið.“