„Er eðlilegt að faðir þriggja yndislegustu barna veraldar hugsi daglega um að stytta sitt eigið líf,“ spurði kvikmyndagerðarmaðurinn Ragnar Hansson lækni á bráðamóttöku geðdeildar Landspítalans síðasta sumar.
Hann hafði glímt við alvarlegt þunglyndi og á þessum tíma var botninum náð.
Um síðustu jól kom hann út úr Legó-skápnum eftir að hafa læðst í kringum hillur leikfangaverslana um árabil og notað börnin sem afsökun fyrir að vera þar. Hann átti aftur á móti ekki von á sálrænu áhrifunum sem Legó-kubbarnir áttu eftir að hafa á hann.
Í færslu sem hann birti á Facebook-síðu sinni fyrir nokkrum dögum fjallar hann um þunglyndið sem hann hefur glímt við og hvernig Legóið hefur hjálpað honum.
Í miðju hruni var ég að kubba heilann minn aftur saman. Skref fyrir skref. Kubb fyrir kubb. Serótín fyrir serótín.
Færsluna skrifaði hann til að útskýra Legó-myndband sem hann birti sama dag, til að útskýra af hverju 38 ára maður væri að gera myndband um leikfangakubba sem hann hafði raðað saman.
Færsla Ragnars vakti gríðarlega athygli og hafa rúmlega fimmhundruð manns lækað hana. Þá hefur fólk einnig haft samband við hann vegna færslunnar.
„Ég hef fengið rosa góð viðbrögð. Þetta sprakk svolítið út á Facebook, ég átti ekki von á svona mikilli ást. Ég henti þessu út í hugsunarleysi. Nánir vinir mínir hafa vitað af þyngslunum mínum, að ég eigi það til að hverfa af sjónarsviðinu í einhvern tíma, þó að ég tali ekki mikið um það,“ segir Ragnar í samtali við Nútímann.
Eftir að hann birti myndbandið settist hann niður til að skrifa og útskýra og birti því næst færsluna.
„Svo fór ég að sofa og þegar ég vaknaði var allt að verða vitlaust. Ég klökknaði. Margir sögðust kannast við þetta, ýmsir er búnir að tala við mig beint og þekkja vel til þessa vandamáls,“ segir Ragnar.
Hann telur að það sé sérstaklega karlmenn sem eigi erfitt með að tala um að þeir glími við andleg veikindi og sjálfsvígshugsanir. Þá hafi hann sem foreldri verið feiminn við að viðurkenna vandann.
„Fyrst og fremst er skelfilegt að þjást af þessu og vera foreldri, þetta yfirgnæfir allt. Þegar ég tók mín verstu köst var mjög óþægilegt að vera ábyrgur fyrir börnum. Maður er óstarfhæfur, maður er algjörlega varnarlaus. Það var kannski ástæðan fyrir því að ég var feimnari að tala um þetta, það var hræðslan við að fólk sjái mann sem óhæfan,“ segir Ragnar.
Hann segir róandi að kubba og að uppskriftin sem fylgir Legóinu sé stór hluti af þessu öllu saman.
„Legóið er eins og hvert annað föndur eða dundur, það er eins og að mála, púsla, prjóna eða hnýta flugu. Þetta er róandi. Ég held að það að fylgja uppskrift sé stór hlutur af þessu, það er eitthvað sem leiðir mann áfram. Skref fyrir skref. Kubb fyrir kubb. Serótín fyrir serótín. Það er bæði það og svo er það líka mín leið út úr þunglyndi að virkja áhugann,“ segir Ragnar.
Hann stofnaði Alvarpið, hlaðvarpsstöð Nútímans, ásamt nokkrum öðrum og hétu þættir Ragnars Áhugavarpið.
„Það snerist mjög mikið í kringum þetta, í rauninni bara að fara í sinn mesta áhuga til að finna tilganginn. Það er ekkert sem gefur manni meiri lífsgleði en að hafa bullandi áhuga á einhverju, að hlakka til einhvers. Ég hlakka alltaf til að kubba. Það geta allir tengt við þetta á einhvern hátt. Það eru litlu hlutirnir sem skipta máli og að byrja smátt. Leyfa sér að vera ekki fastur í fullorðinsstigmanu, leyfa sér að fara inn í barnið,“ segir hann.
Svona endaði Ragnar færsluna sína:
„Ég heiti Ragnar. Ég er 38 ára. Ég elska börnin mín. Ég elska lífið. Ég elska að búa til myndbönd. Og ég elska Lego.“