Tveggja ára drengur, sem þótti ekki hegða sér nógu vel í hádegismatnum á leikskólanum Kærabæ á Fáskrúðsfirði í gær, var settur á stól fyrir utan leikskólann til að refsa honum. Hann var ekki í útifötum og var dyrunum á skólanum lokað.
Þetta kemur fram í frétt á vef Austurfréttar.
Þar segir að móðir drengsins hafi farið í skýrslutöku hjá fræðsluyfirvöldum Fjarðarbyggðar vegna málsins í morgun. Hún segir í samtali við Austurfrétt að þar hafi öllum borið saman að uppákoma sem þessi sé aldrei í lagi.
Móðir drengsins fór einnig á fund leikskólastjóra í morgun sem baðst afsökunar á atvikinu. Starfsmaðurinn, sem setti drenginn út í kuldann, er deildarstjóri og menntaður leikskólastjóri. Hann fór einnig í skýrslutöku í morgun ásamt fleiri starfmönnum skólans.
„Það ber öllum saman, barnið mitt var sett óklætt út í kuldann í hádeginu í gær. Hann hafði verið að herma eftir einhverjum, hlægja og fíflast ásamt öðrum börnum og því var gripið til þessa ráðs,“ segir móðirin í samtali við Austurfrétt.
Móðirin segir alla hafa sagt að barnið hafi verið úti í stutta stund.
„Mér er alveg sama. Hann var settur út í frost og kulda og hurðinni lokað á eftir honum. Þar sat hann svo hágrátandi þegar vinkona mín kom,“ segir móðirin en vinkona hennar sem var að koma að sækja barnið sitt kom að drengnum, sitjandi úti í kuldanum.
Hún hringdi strax í leikskólann þegar hún heyrði af þessu og játaði starfsmaðurinn að hafa sett drenginn út.
„Hún sagði mér jafnframt að hún hafi gert þetta áður við annað barn í leikskólanum og hélt líklega að það myndi róa mig, sem það þvert á móti gerði ekki, þá varð ég gersamlega brjáluð,“ segir móðirin.