Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakar enn hvarf Birnu Brjánsdóttur en nú er rétt tæp vika liðin frá því að síðast sást til hennar.
Leit björgunarsveita að henni hefur enn engan árangur borið en á morgun verður leitað á 2.500 ferkílómetra svæði. Björgunarsveitir af öllu landinu munu taka þátt í leitinni.
Það sem við komumst að í dag
- Grænlensku skipverjarnir tveir voru úrskurðaðir í tveggja vikna gæsluvarðhald á grundvelli 211. greinar almennra hegningarlaga en þetta kom fram á Vísi. Greinin fjallar um manndráp.
- Mennirnir eru báðir á þrítugsaldri. mbl.is greindi frá. Í frétt Stundarinnar kemur fram að annar þeirra hafi hlotið dóm á Grænlandi fyrir fíkniefnamisferli.
- Mennirnir voru yfirheyrðir í dag en neita sök í málinu. Þeir útiloka þó ekki að hafa hitt Birnu, líkt og kemur fram í frétt RÚV.
- Á öryggismyndavélum úr miðbænum má sjá að mennirnir tveir og Birna voru á svipuðum stað á svipuðum tíma aðfaranótt laugardagsins 14. janúar. mbl.is greindi frá þessu.
- Lögregla vill ná tali af ökumanni hvítrar bifreiðar sem ekið var vestur Óseyrarbraut í Hafnarfirði laugardaginn 14. janúar kl. 12.24. Hann er ekki grunaður um neitt saknæmt.
- Blóð fannst í bílnum sem annar Grænlendingurinn var með á leigu. Lögregla hefur staðfest þetta. Þar að auki segist Vísir hafa áreiðanlegar heimildir fyrir því að talið sé að blóðið sé úr Birnu.
- Bílaleigubíllinn var ekki í Hafnarfjarðarhöfn frá kl. 7 til kl. 11.30 á laugardagsmorgun.
- Lögregla bað ökumenn bifreiða, sem búa yfir myndavélabúnaði, að fara yfir myndefnið í von um að það geti gagnast við leitina að Birnu. Aðeins er átt við myndefni sem tekið var upp á milli kl. 7 og 11.30 laugardaginn 14. janúar, eða þegar bíllinn var ekki á hafnarsvæðinu.
- Leitað verður að Birnu á 2.500 ferkílómetra svæði um helgina. Leitarsvæðið markast af Borgarfirði, Selfossi og Reykjanesi. Áhersla er lögð á leit á vegum og slóðum á þessu svæði.