Allir tiltækir viðbragðsaðilar á höfuðborgarsvæðinu voru kallaðir út aðfaranótt sunnudags þegar tilkynning barst slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu um að einstaklingur hafi mögulega farið í sjóinn við Granda.
Hún var á lífi og var flutt á gjörgæsludeild Landspítalans
Samkvæmt heimildum Nútímans sást kona fara út í sjó við Örfirisey úti á Granda og var því viðbúnaður mikill líkt og greint var frá á Facebook-síðu slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins. Þar kom fram að um klukkan 01:00 aðfaranótt sunnudagsins síðasta hafi leit verið hafin að manneskju sem var talin hafa farið í sjóinn.
Kafarar, bátar og þyrla Landhelgisgæslunnar leituðu að umræddri manneskju en líkt og kom fram í frétt Vísis á sunnudagsmorgun bar sú leit ekki árangur.
Algjört kraftaverk
Konan hins vegar fannst í gær, þó ekki sé vitað um nákvæma tímasetningu, en samkvæmt heimildum Nútímans fannst hún köld og hrakin við Engeyjarsund. Hún var á lífi og var flutt á gjörgæsludeild Landspítalans. Ekki er vitað um ástand hennar að svo stöddu. Þegar litið er á hafstrauma í kring um Örfirisey umrædda nótt sést hvar þeir berast frá bryggjunni og í átt að Engey.
Þeir viðbragðsaðilar sem Nútíminn ræddi við segja það algjört kraftaverk að konan hafi fundist á lífi – þá sérstaklega þegar leit hafði verið hætt að henni þar sem hún ekki fannst. Ekki er þó vitað um aðdragandann að því að hún fannst þar sem engar upplýsingar hafa borist – hvorki frá lögreglu né slökkviliði höfuðborgarsvæðisins. Ekki náðist í forsvarsmenn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu eða slökkviliðsins þegar Nútíminn hafði samband síðdegis.