Lífsýni úr rauðri Kia Rio bifreið sem lögregla lagði hald á í vikunni reyndist vera úr Birnu Brjánsdóttur.
Um er að ræða bíl sem annar grænlensku skipverjanna sem eru sæta gæsluvarðhaldi, grunaðir um að hafa myrt Birnu, var með á leigu. Þar með hefur verið staðfest að Birna hafi verið í bílnum.
Þetta kemur fram í tilkynningu sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sendi frá sér.
Lífssýni úr bílnum voru send til rannsóknar í Svíþjóð.
Annar skipverjinn sem er í haldi lögreglu er einnig grunaður um aðild að smygli á 20 kílóum af hassi sem fundust í grænlenska togaranum Polar Nanoq við leit lögreglu aðfaranótt fimmtudags.
Þrír skipverjar af togaranum hafa verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald síðustu vikuna, sá þriðji vegna fíkniefnanna. Hann átti að sæta gæsluvarðhaldi til morguns en hefur verið sleppt.
Einar Guðberg Jónsson, rannsóknarlögreglumaður, sagði í samtali við fréttastofu 365 að lögreglan telji ekki að hvarf Birnu tengist fíkniefnunum á nokkurn hátt.
Fíkniefnin eru metin á 228 milljónir króna sé miðað við götuverð á hassi í Nuuk, höfuðborg Grænlands.
Leitin að Birnu: Það sem við vitum um skipverjana tvo sem sitja í gæsluvarðhaldi